Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar (EYOF) fer fram dagana 20.–26. júlí 2025 í Skopje, höfuðborg Norður-Makedóníu. Um er að ræða stærsta fjölíþróttamót Evrópu fyrir ungt íþróttafólk á aldrinum 14–18 ára, þar sem keppt er í fjölmörgum greinum og rík áhersla er lögð á jafnræði, vináttu og samstöðu.
Á EYOF 2025 munu um 4.000 ungir keppendur frá 48 Evrópuþjóðum taka þátt í 15 íþróttagreinum og í ár mun Ísland eiga 49 keppendur í sjö keppnisgreinum; borðtennis, badminton, götuhjólreiðum, frjálsíþróttum, handbolta, júdó og áhaldafimleikum. Þetta verkefni er á vegum ÍSÍ sem sér um aðalfararstjórn hópsins.
Þetta er í fyrsta sinn sem Norður-Makedónía heldur Ólympíuhátíð æskunnar en Norður-Makedónía er lítið land á Balkanskaga, ríkulegt af náttúruperlum, menningararfi og mikilli sögu. Landið státar m.a. af fleiri fjallatoppum yfir 2.000 metra að hæð miðað við flatarmál en nokkurt annað land í heiminum og þar speglast fjöllin í tærum vötnum og eitt þeirra, „Lake Ohrid“, er elsta vatn Evrópu. Það er greinilega mikil náttúruparadís í Norður-Makedóníu og ekki leiðinlegt fyrir þetta unga íþróttafólk að fá að upplifa þessa stóru íþróttahátíð í svona fallegu landi.
Fjórir íslenskir keppendur í frjálsíþróttum
Keppt verður í frjálsíþróttum dagana 21.–26. júlí og mun Ísland að þessu sinni eiga fjóra keppendur í frjálsíþróttum, en frjálsíþróttakeppni EYOF er U18 mót.
Athugið að allar tímasetningar eru að staðartíma og Skopje er tveimur tímum á undan Íslandi.
Bryndís Embla Einarsdóttir (Selfoss) keppir í spjótkasti (500 g.). Bryndís Embla er búin að vera á mikilli siglingu undanfarin misseri í spjótkasti en hún á aldursflokkamet í flokki 15 ára stúlkna bæði með 400 g spjótinu (48,79 m) og 600 g spjótinu (44,75 m), en þau eru bæði frá síðasta sumri. Svo gerði hún sér lítið fyrir og setti einnig aldursflokkamet í flokki 16-17 ára stúlkna (500 g) fyrr í sumar þegar hún kastaði 46,32 m, en hún var að færast upp um þyngd á spjótinu núna í ár þegar hún kom upp í 16-17 ára flokkinn.
Bein úrslit spjótkasts stúlkna fara fram föstudaginn 25. júlí klukkan 16:30.
Benedikt Gunnar Jónsson (ÍR) keppir í kúluvarpi (5 kg). Benedikt er sannarlega á frábærri leið sem kúluvarpari og hefur bætt hvert aldursflokkametið á fætur öðru undanfarið, bæði innanhúss og utanhúss og með ýmsum þyngdum. Hann á gildandi aldursflokkamet í flokki 15 ára pilta með 4 kg kúlunni bæði innanhúss (18,28 m) og utanhúss (17,93 m) og með 5 kg kúlunni bæði innanhúss (16,19 m) og utanhúss (14,42 m). Benedikt var að færast upp í flokk 16-17 ára í ár og er því kominn í 5 kg kúluna og bætti núna í júní aldursflokkametið í þeim flokki þegar hann kastaði 18,42 m.
Bein úrslit kúluvarps pilta fara fram mánudaginn 21. júlí klukkan 19:10.
Patrekur Ómar Haraldsson (Breiðablik) keppir í 800 m hlaupi. Patrekur er búinn að vera með ansi stöðugar bætingar í 800 m hlaupi undanfarið rúmt ár. Frá ársbyrjun 2024 til dagsins í dag hefur hann bætt tímann sinn um rétt tæpar 11 sekúndur, sem er virkilega flottur árangur. Utanhúss hefur Patrekur hlaupið hraðast 2:03,18 sek en hann gerði það í maí sl. en besti tíminn hans innanhúss er 2:00,83 sek frá því í janúar sl. Þannig að það er örugglega ekki langt í það að Patrekur fari undir 2 mínútna múrinn.
Undanriðlar 800 m hlaups pilta fara fram mánudaginn 21. júlí klukkan 10:40 og úrslitin fara svo fram fimmtudaginn 24. júlí klukkan 10:35.
Hjálmar Vilhelm Rúnarsson (Selfoss) keppir í tugþraut. Hjálmar er búinn að eiga mjög flott tímabil í sumar, bæði í þrautinni sem og í einstaka greinum og hefur verið að bæta sig mikið. Hann t.d. rauf 50 m múrinn í kringlukasti (1,5 kg) fyrr í sumar þegar hann kastaði 50,63 m á MÍ 15-22 ára og bætti sig í hástökki þegar hann stökk 1,94 m á Bikarkeppni FRÍ núna í byrjun júlí. Eins er hann alveg við 60 metrana í spjótkasti (700 g) en í vor kastaði hann 59,34 m. Hjálmar átti flotta tugþraut á Norðurlandameistaramótinu í fjölþrautum sem fram fór í Gautaborg um miðjan júní og bætti þar aldursflokkametið í flokki 16-17 ára pilta þegar hann fékk 6733 stig.
Tugþraut pilta hefst á 100 m hlaupi föstudaginn 25. júlí klukkan 9:00 og síðasta greinin, 1500 m hlaup, fer fram laugardaginn 26. júlí klukkan 17:30.
Hvar verður hægt að fylgjast með?
Hægt verður að fylgjast með gangi mála í gegnum eftirfarandi miðla:
📱 Facebook: Skopje2025
📸 Instagram: @skopje_2025
🎵 TikTok: @skopje2025
▶️ Streymi
Það verður virkilega gaman að fylgjast með okkar unga og mjög svo efnilega frjálsíþróttafólki sem öll eru að keppa á svona stórum alþjóðavettvangi í fyrsta sinn. Við sendum þeim góða strauma og óskum þeim ofsalega góðs gengis.