Frjálsíþróttasamband Íslands tekur stórt skref í stafrænu skipulagi móta og afrekaskráningar núna um áramótin. Í byrjun árs 2026 verður mótaforritið Þór lagt niður og mun Roster Athletics taka alfarið við sem mótaumsjónarkerfi FRÍ. Jafnframt fer afrekaskrá FRÍ alfarið yfir í Tilastopaja, alþjóðlegan gagnagrunn sem heldur utan um árangur milljóna frjálsíþróttamanna um heim allan.
Roster Athletics tekur við af Þór
Frá og með 1. janúar 2026 verður eingöngu hægt að skrá mót í Roster Athletics. Mótshaldarar geta þó þegar byrjað að nota kerfið og er innleiðing hafin. Eldri mót munu áfram vera aðgengileg í Þór til skoðunar, en ný mót verða alfarið skráð og unnin í Roster frá og með áramótum.
Roster Athletics er stafrænt keppnishalds- og viðburðakerfi fyrir frjálsíþróttir sem sameinar skráningar, skipulag, tímamælingar, niðurstöður og tölfræði í einni lausn. Kerfið samanstendur annars vegar af umsjónarkerfi (admin) fyrir mótshaldara og hins vegar vef og appi fyrir þátttakendur og aðstandendur sem vilja fylgjast með keppni í rauntíma.
Kerfið er á ensku en framtíðarsýnin er að vinna að þýða kerfið yfir á íslensku.
Helstu kostir Roster:
- Einfaldara skipulag móta og minni hætta á villum
- Rauntímaupplýsingar fyrir keppendur, þjálfara og áhorfendur
- Sveigjanlegt kerfi – hentar bæði litlum og stórum mótum
- Samfella, allt í einu kerfi: skráning → tímataka → úrslit → afrekaskrá
- Góð notendaupplifun fyrir alla sem koma að mótahaldi
Aðgangur að kerfinu er veittur í gegnum support@rosterathletics.com. Senda þarf inn nafn félags/mótshaldara og netfang forráðamanns. Hægt er að skrá marga notendur og úthluta mismunandi heimildum, t.d. fyrir tímatökustjóra eða aðra starfsmenn móta.
FRÍ hefur jafnframt fjárfest í spjaldtölvum sem félög geta fengið lánuð til mótshalda. Tölvurnar eru nettengdar og henta vel til Roster-notkunar. Einnig er hægt að styðjast við snjallsíma eða tölvur eftir því sem hentar.
Tilastopaja – ný afrekaskrá FRÍ
Jafnframt tekur Tilastopaja við sem ný afrekaskrá FRÍ. Þar er að finna einn umfangsmesta gagnagrunn í heimi frjálsíþrótta, með milljónum keppenda og árangri þeirra.
Í nýju afrekaskránni verður hægt að skoða:
- Tölfræði, topplista og heimslista
- Fyrri árangur íslenskra keppenda og samanburð milli ára
- Niðurstöður innlendra og erlendra móta á einum stað
Stærsta breytingin felst í því að árangur flyst beint úr Roster yfir í afrekaskrá, bæði innlendur og erlendur. Þjálfarar og íþróttafólk þurfa því ekki lengur að óska eftir skráningu á erlendum árangri sérstaklega, kerfið sér sjálft um flutning gagnanna.
Slóðin á nýju afrekaskrána verður afrekaskra.fri.is.
Innleiðing þessara kerfa markar ákveðið framfaraskref fyrir íslenskar frjálsíþróttir og skapar hraðara, skýrara og skilvirkara ferli, fyrir mótshaldara, keppendur og alla sem fylgjast með. Innleiðing nýrra kerfa felur ávallt í sér breytingar og má gera ráð fyrir að fyrstu vikur og mánuðir verði ákveðið lærdómsferli fyrir öll sem að þessu koma. Ef spurningar vakna eða aðstoðar er óskað, má hafa samband við skrifstofu FRÍ á skrifstofa@fri.is eða skráningarnefnd FRÍ á skraning@fri.is.