Einn af hápunktum innanhússtímabilsins í frjálsíþróttum verður núna um helgina, 22.-23. febrúar, í Laugardalshöllinni þegar Meistaramót Íslands fer fram. Flest af okkar allra besta frjálsíþróttafólki mætir á völlinn og keppir í sínum greinum. Það má búast við skemmtilegu móti og spennandi keppni.
Meðal keppenda í ár er neðangreint íþróttafólk.
Hástökk kvenna
Hástökkvarinn Birta María Haraldsdóttir (FH) átti frábært ár í fyrra þegar hún bætti sig um 8 cm innanhúss frá árinu 2023 og um 7 cm utanhúss. Hennar besti árangur innanhúss er 1,83 m frá því í mars 2024. Hún varð Íslandsmeistari í fyrra og á því titil að verja. Birta er að koma til baka úr meiðslum og verður gaman að sjá hana stökkva á nýjan leik.
Íslandsmetið í hástökki innanhúss á Þórdís Lilja Gísladóttir og er það 1,88 m frá 1983.
Hástökk kvenna er laugardaginn 22. febrúar kl. 13:00.
60 m hlaup kvenna
Það má búast við mjög spennandi 60 m hlaupi kvennamegin þar sem Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) og María Helga Högnadóttir (FH) mætast, en þær eru með sama besta tímann á tímabilinu. Þær hafa báðar hlaupið á 7,57 sek á tímabilinu, Eir hljóp á þeim tíma á RIG í lok janúar og María Helga á Aðvenntumóti Ármanns í desember sl. Þær hlupu báðar 60 m á MÍ 15-22 ára um síðustu helgi og þar hljóp Eir á 7,61 sem og María Helga á 7,63. Þannig að þetta gæti orðið alveg svakalega spennandi 60 m hlaup. María Helga varð Íslandsmeistari í fyrra og á því titil að verja.
Íslandsmetið í 60 m hlaupi innanhúss á Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og er það 7,35 sek frá 2023
Riðlakeppni í 60 m hlaup kvenna er laugardaginn 22. febrúar kl. 13:20.
Úrslit í 60 m hlaupi kvenna eru laugardaginn 22. febrúar kl. 14:35.
Langstökk og þrístökk karla
Daníel Ingi Egilsson (FH) er skráður í langstökk og þrístökk um helgina. Daníel Ingi er búin að stökkva lengst í ár 7,63 m og gerði hann það á stökkmóti í Póllandi í lok janúar, og er það hans besti árangur í langstökki innanhúss. Daníel Ingi hefur ekki stokkið þrístökk síðan árið 2023, en hann á Íslandsmetið innanhúss sem er 15,49 m fra því í febrúar 2023. Þannig að það verður gaman að sjá hvað hann gerir í þrístökkskeppninni í ár.
Íslandsmetið í langstökki innanhúss á Jón Arnar Magnússon og er það 7,82 m frá 2000.
Íslandsmetið í þrístökki innanhúss á Daníel Ingi Egilsson og er það 15,49 m frá 2023.
Langstökk karla er laugardaginn 22. febrúar kl. 13:30.
Þrístökk karla er sunnudaginn 23. febrúar kl. 12:55.
Langstökk og þrístökk kvenna
Irma Gunnarsdóttir (FH) er skráð í langstökk og þrístökk um helgina, og á hún titil að verja í báðum greinunum frá því í fyrra. Í langstökki er Irma búin að stökkva lengst 6,24 m í ár, en það gerði hún á Norðurlandameistaramótinu í Finnlandi fyrr í mánuðinum. Besti árangur hennar í langstökki innanhúss er frá því í janúar 2024, þegar hún stökk 6,45 m. Irma er ekki búin að keppa í þrístökki í ár, en hennar besti árangur í þrístökki innanhúss er 13,36 m sem er Íslandsmet í greininni og er það frá febrúar 2023. Verður gaman að sjá hvað hún gerir á stökkbrautinni um helgina.
Íslandsmetið í langstökki innanhúss á Hafdís Sigurðardóttir og er það 6,54 m frá 2016.
Íslandsmetið í þrístökki innanhúss á Irma Gunnarsdóttir og er það 13,36 m frá 2023.
Langstökk kvenna er laugardaginn 22. febrúar kl. 14:45.
Þrístökk kvenna er sunnudaginn 23. febrúar kl. 14:00.
400 m hlaup karla
Það má búast við mjög spennandi 400 m hlaupi í karlaflokki þegar þeir Ívar Kristinn Jasonarson (ÍR) og Sæmundur Ólafsson (ÍR) mætast á brautinni. Ívar er búinn að hlaupa hraðast í ár á 49,04 sek og var það á Stórmóti ÍR í janúar sl. og á sama móti hljóp Sæmundur á 48,92 sek, sem er hans best tími á árinu.
Íslandsmetið í 400 m hlaupi innanhúss á Kolbeinn Höður Gunnarsson og er það 47,79 sek frá 2015.
400 m hlaup karla er laugardaginn 22. febrúar kl. 15:15.
200 m hlaup kvenna
Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) er í svaka formi þessa dagana og var með góða bætingu í 200 m hlaupi á MÍ 15-22 ára um síðustu helgi þegar hún hljóp á 24,00 sek. Það verður gaman að sjá hvað hún gerir nú um helgina, en hún er alveg við aldursflokkametið í greininni, í flokki 18-19 ára, sem er 23,98 sek sem Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir á og er frá febrúar 2020. Einnig á Eir titil að verja í greininni þar sem hún varð Íslandsmeistari í fyrra.
Íslandsmetið í 200 m hlaupi innanhúss á Silja Úlfarsdóttir og er það 23,79 sek frá 2004.
200 m hlaup kvenna er sunnudaginn 23. febrúar kl. 13:00.
Kúluvarp kvenna
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) mætir í kúluvarpshringinn í kúlvarpskeppni kvenna, en hún á titil að verja frá því á Meistaramóti Íslands í fyrra. Hún á Íslandsmetið sem er 17,92 m og er það frá því í febrúar 2023. Besti árangur hennar á tímabilinu er 17,63 m frá því á Norðurlandameistaramótinu í Finnlandi fyrr í mánuðinum.
Íslandsmetið í kúluvarpi innanhúss á Erna Sóley Gunnarsdóttir og er það 17,92 m frá 2023.
Kúluvarp kvenna er sunnudaginn 23. febrúar kl. 14:20.
Heildarkeppendalista, tímaseðil og úrslit er hægt að skoða hér.