Kynnumst íþróttafólkinu okkar: Hlaupakonan Hulda Fanný Pálsdóttir

Penni

6

min lestur

Deila

Kynnumst íþróttafólkinu okkar: Hlaupakonan Hulda Fanný Pálsdóttir

Síðastliðinn sunnudag, 27. október, fór Frankfurt maraþonið fram og þar áttum við Íslendingar nokkra keppendur og m.a. hana Huldu Fanný Pálsdóttur úr FH. Ekki nóg með að hún hafi hlaupið maraþon heldur gerði þessi 22 ára gamla hlaupakona sér lítið fyrir og hljóp á frábærum tíma, eða 03:01:40, sem er nýtt aldursflokkamet í flokki 20-22 ára stúlkna. Fyrra aldursflokkamet átti Andrea Kolbeinsdóttir, 03:06:22, en það var sett í október 2021. Jafnframt er tíminn hennar Huldu á sunnudaginn tíundi besti tími íslenskrar konu í maraþoni frá upphafi, glæsilegur árangur hjá henni. Það sem gerir þennan árangur ennþá merkilegri er að fyrir sumarið í ár hafði Hulda aldrei hlaupið lengra en 25 km samfellt og var hlaupið í Frankfurt hennar fyrsta maraþonhlaup.

Úrslit Frankfurt maraþonsins má sjá hér.

Hulda byrjaði að hlaupa fyrir um fjórum árum síðan og hóf þá strax að æfa hlaup hjá Sigurði P. Sigmundssyni í FH. Hún hefur mestan áhuga á götuhlaupum og hefur náð flottum árangri í þeim undanfarið en hennar besti tími í 10 km er 38:31:00, frá 2023, og besti tíminn í hálfu maraþoni er 01:24:24, frá því núna í sumar.

En hún hefur líka aðeins hlaupið á brautinni og hefur keppt í 1500-5000 m á braut undanfarin ár með ágætum árangri.

En hver er Hulda Fanný og hvernig kemur það til að svona ung kona er að ná þessum flotta árangri í maraþonhlaupi? Við höfðum samband við Huldu og ræddum aðeins við hana um hlaupalífið og hennar markmið í hlaupunum.

En hvað kom til að Hulda ákvað að byrja að æfa hlaup?

Hulda æfði ekki skipulagðar íþróttir sem barn og unglingur heldur var hún í leiklist og öðrum listgreinum og hafði í raun ekkert hlaupið að ráði fyrr en 2020. Hulda á nú ekki langt að sækja hlaupabakteríuna en foreldrar hennar eru miklir hlauparar sem hafa æft og keppt í lengri hlaupum í fjölda ára. Þau höfðu eitthvað verið að reyna að fá hana með sér út að hlaupa en henni fannst þetta aldrei neitt spennandi fyrr en í fjölskylduferð í Flórída árið 2020. Þar skellti hún sér með þeim út að hlaupa og hljóp með þeim einhverja 20 km og uppgötvaði þá að þessi hlaup væru nú kannski alveg skemmtileg og að hún gæti jafnvel orðið góð í þeim.

Í framhaldi af þessu fylgir hún foreldrum sínum á hlaupaæfingu hjá honum Sigga P. í FH og þá var ekki aftur snúið og Hulda heldur betur búin að finna sína hillu í hlaupunum. Það er gaman að segja frá því að þau fjölskyldan æfa ennþá saman og það er í raun pabba hennar Huldu að kenna að hún hljóp í Frankfurt á sunnudaginn. Foreldrar hennar voru búnir að skrá sig í Frankfurt maraþonið en Hulda stefndi ekki á maraþon á þessu ári, heldur ætlaði hún að hlaupa hálft maraþon í Kaupmannahöfn núna í haust en vegna anna í skólanum komst hún ekki í það hlaup. Í hugsanaleysi segir hún þá við foreldra sína að kannski komi hún þá bara með þeim í maraþon í Frankfurt og pabbi hennar tekur hana á orðinu og skráði hana í hlaupið.

Hefur áhuginn alltaf legið meira í götuhlaupum? Hvers vegna? Hvað er svona heillandi við götuhlaupin?

Huldu hefur alltaf þótt götuhlaupin mun meira heillandi heldur en keppnishlaup á braut og þegar hún byrjaði að hlaupa 2020 þá stefndi hún alltaf á götuhlaupin og þá helst lengri vegalengdirnar, hálft maraþon og maraþon.

Það sem Huldu finnst götuhlaupin hafa framyfir hlaup á braut er að það er svo gaman að hlaupa alltaf í nýju og nýju umhverfi, en ekki bara hring eftir hring á braut. En Hulda tekur það samt fram að hlaup á braut hafa sinn sjarma og þá sérstaklega þegar kemur að æfingum. Svo talar Hulda um að hennar styrkleiki sem hlaupari er úthaldið og henni finnst æðislegt að ná upp góðum hraða og halda honum út hlaupið.

Svo talar Hulda líka um stemminguna sem myndast oft í götuhlaupum, og þau sem hafa tekið þátt í stórum götuhlaupum geta örugglega tekið undir það að sú stemming getur verið alveg geggjuð og hjálpar alveg helling í löngum hlaupum.

Svo má ekki gleyma því að lengri hlaup geta tekið mikið á andlegu hliðina og má segja að þetta sé rosalega andlegt sport og þar skiptir sjálfstraustið svakalega miklu máli og Hulda leggur áherslu á að þjálfa það til að vera tilbúin fyrir löng hlaup.

Nú ertu ennþá mjög ung og ert strax að ná þessum glæsilega árangri að hlaupa heilt maraþon á rétt rúmum þremur tímum, hvert stefnir þú á framtíðinni hlaupalega séð?

Markmiðið er klárlega að halda áfram að einbeita sér að hálfu maraþoni og maraþoni. Hulda vissi fljótt að hálft maraþon ætti virkilega vel við hana og núna eftir hlaupið á sunnudaginn sá hún sannarlega að heilt maraþon gerir það líka, þannig að á áherslurnar hjá henni eru þessar tvær vegalengdir.

Eins og sést á tímanum hennar á sunnudaginn þá var hún grátlega nálægt því að vera á undir þremur tímum og er það klárlega eitt af hennar markmiðum núna að klára maraþon á innan við þremur tímum. Eins og er þá er ekkert planað keppnishlaup en Hulda stefnir sannarlega á að hlaupa maraþon á næsta ári.

Eins og komið hefur fram hér að ofan þá var stefnan á þessu ári aðeins sett á hálft maraþon og var markmiðið þar að hlaupa á undir 01:24:00 og stefnir hún einnig á keppni í hálfu maraþoni á næsta ári, en ekkert hlaup planað eins og er.

Almennt hvað hlaupin varðar þá langar Huldu að geta einbeitt sér ennþá meira að hlaupunum á næsta ári, en hún er að útskrifast með BA-gráðu í lögfræði næsta vor þannig að það er spurning hvort að þá losni um smá tíma sem hún getur notað í hlaupin.

Hvernig var hlaupið í Frankfurt? Gekk allt samkvæmt plani?

Stefnan var að hlaupa maraþonið á undir þremur tímum og stóran hluta af hlaupinu var það markmið vel í augsýn. Hulda segir að hún hafi farið skynsamlega og stað og í fyrri hluta hlaupsins leið henni æðislega og það var geggjaður fílingur í henni og á 19. kílómetra hleypur hún upp 2:59 blöðruna (hraðastjórinn fyrir þau sem stefna á að hlaupa á undir þremur tímum) og hleypur með henni næstu kílómetrana. Hún lendir svo í því að ein tánögl rifnar af þegar komnir eru tæpir 30 kílómetrar og þá aðeins hægist á henni og hausinn aðeins fer og þá fer þetta að verða smá strembið. Hún missir svo 2:59 blöðruna aðeins frá sér þegar það eru 5 km eftir og þá hægist aðeins á henni en hún þjösnast áfram í gegnum sársaukann í tánum og þreytuna í líkamanum og nær að taka góðan lokasprett og klárar á rétt rúmum þremur tímum

Hulda segir að hlaupið sjálft hafi verið æðislegt, mikill fjöldi hlaupara og þvílík stemming og mikið pepp í brautinni sem gefur þessa auka orku. Eitt sem er svo gaman við að hlaupa erlendis er þessi fjöldi, maður hefur alltaf einhvern að hlaupa með, hérna heima er maður stundum bara að hlaupa einn.

Svo er alltaf gaman að kynnast aðeins hinni hliðinni á íþróttafólkinu okkar, hvað gerir þú þegar þú ert ekki á hlaupum?

Eins og búast má við þá æfir Hulda mjög mikið og eru æfingar stór partur af hennar lífi og í maraþonprógramminu núna þá var hún að hlaupa um 100 km á viku og þar inni eru tvær mjög langar gæðaæfingar á viku, en það eru uppáhaldsæfingarnar hennar Huldu. Hulda naut aðstoðar hins margreynda hlaupara Arnars Péturssonar við maraþonundirbúninginn og segir hún að hann hafi skipulagt og sett upp mjög fjölbreyttar og skemmtilegar æfingar, sem er nú ansi mikilvægt þegar æfingaálagið er mikið. Svo núna þegar aðstæður úti fara kannski að verða erfiðari þá breytast æfingar aðeins og þá bætast einnig við brautaræfingar inni.

En hvað gerir Hulda þegar hún er ekki að hlaupa? Eins og komið hefur fram þá er hún að klára BA-nám í lögfræði núna í vor en hún leggur stund á lögfræðinám við Háskólann í Reykjavík og það er ekki að heyra á henni að metnaðurinn fyrir náminu sé eitthvað minni en metnaðurinn í hlaupunum, en hún stefnir á mastersnám í lögfræði í framtíðinni. Hvort það verði strax næsta haust verður bara að koma í ljós því Hulda er mjög spennt fyrir því að geta einbeitt sér ennþá betur að hlaupunum og sinnt þeim að enn meiri krafti. Eitt sem Hulda er mjög spennt fyrir og var virkilega gaman að hlusta á hana tala um eru háfjallaæfingabúðir. En hún fór með æfingahópnum sínum í slíkar æfingabúðir til Kenýa árið 2023 og voru þau þar í bænum Iten, sem er þekktur undir nafninu „Iten: The Home of Champions“, sem er í 2400 m hæð yfir sjávarmáli. Hulda segir að þessar æfingarbúðir séu eitt það skemmtilegasta sem hún hefur gert og gaf henni einnig mikið hlaupalega séð. Ekki aðeins það, heldur jókst almennur áhugi hennar á hlaupum einnig þarna þar sem það voru allir hlaupandi.

Þannig að lífið hjá þessari metnaðarfullu ungu konu snýst þessa dagana mest um hlaup og skóla, enda segir Hulda að það sé ekki til betri hvíld frá námsbókunum en hlaupin. Núna er smá hlaupapása hjá henni og verður sú pása nýtt til prófaundirbúnings, því það eru lokapróf framundan.

Við þökkum Huldu Fanný kærlega fyrir að spjallið og óskum henni innilega til hamingju með þennan glæsilega árangur og óskum henni alls hins besta í áframhaldandi hlaupum og námi. Verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni, hún á greinilega nóg inni.

Svo er upplagt að nýta tækifærið og minna þau á sem ná árangri í keppnum á erlendri grundu að sækja um að afrekið verði skráð í afrekaskrá FRÍ – sjá nánar hér.

Penni

6

min lestur

Deila

Kynnumst íþróttafólkinu okkar: Hlaupakonan Hulda Fanný Pálsdóttir

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit