Gunnar Páll sjötugur

Penni

< 1

min lestur

Deila

Gunnar Páll sjötugur

Í dag er Gunnar Páll Jóakimsson hlaupaþjálfari og fyrrverandi kennari sjötugur. Hann á farsælan hlaupaferil að baki sem og stórkostlegan feril sem hlaupaþjálfari. Gunnar Páll keppti fyrir landsliðið í rúman áratug í 400m – 5000m hlaupum og varð margfaldur Íslandsmeistari. Hann byrjaði að æfa frjálsar íþróttir þegar hann bjó á Árskógsströnd ásamt fjölskyldu sinni en þar var mikið íþróttastarf sem hann tók virkan þátt í. Á menntaskólaárunum fór hann að æfa hlaup hjá ÍR en þar kynntist hann konu sinni, Oddnýju F. Árnadóttur spretthlaupara ásamt því að mynda þar mikilvæg vinatengsl.

Á tímabili þjálfaði hann stóran hluta landsliðsfólks í millivegalengda- og langhlaupum, þar af þrjá Ólympíufara:

  • Mörthu Ernstdóttur sem keppti í maraþonhlaupi í Sydney árið 2000
  • Kára Stein Karlsson sem keppti í maraþonhlaupi í London árið 2012
  • Anítu Hinriksdóttur sem keppti í 800m hlaupi í Ríó árið 2016

Auk þess var Gunnar Páll þjálfari á Evrópumeistara- og heimsmeistaramótum og í öðrum landsliðsverkefnum.

Gunnar Páll er heiðursfélagi ÍR frá árinu 2017 en hann hefur starfað fyrir ÍR í rúmlega hálfa öld. Hann var formaður frjálsíþróttadeildarinnar, hefur tvisvar verið í aðalstjórn félagsins, þjálfari og sjálfboðaliði.Einnig hefur hann starfað fyrir FRÍ en árið 1984 réð FRÍ Gunnar Pál sem fyrsta framkvæmdastjóra Reykjavíkurmaraþonsins. Hann hefur unnið hin ýmsu nefndarstörf fyrir FRÍ en á síðari árum hefur hann unnið að söguvef FRÍ með öðrum góðum félögum. Frjálsíþróttasamband Íslands óskar Gunnari Páli til hamingju með árin 70 og þakkar honum fyrir ómetanlegt framlag til íþróttarinnar.

Penni

< 1

min lestur

Deila

Gunnar Páll sjötugur

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit