Evrópumeistaramótið innanhúss hefst núna á fimmtudaginn, 6. mars, í Apeldoorn í Hollandi. Það eru þrír íslenskir keppendur sem taka þátt í ár og þeirra á meðal er lang-og þrístökkvarinn Daníel Ingi Egilsson en hann keppir í langstökki á EM í ár. Þetta er hans annað stórmót í og hans fyrsta Evrópumeistaramót innanhúss, en Daníel Ingi keppti á sínu fyrsta stórmóti í fyrra þegar hann keppti á Evrópumeistaramótinu í Róm.
Daníel Ingi er margfaldur Íslands-og bikarmeistari í langstökki og þrístökki bæði innanhúss og utanhúss og einnig Íslandsmethafi í langstökki utanhúss (8,21 m) og í þrístökki innanhúss (15,49 m).
Besti árangur Daníels Inga innanhúss er 7,63 m frá 30. janúar sl.
Besti árangur Daníels Inga á tímabilinu er 7,63 m frá 30. janúar sl.
Hvernig undirbýrð þú þig fyrir svona stórmót? Einhver munur á því og að undirbúa sig fyrir önnur mót?
„Nei í rauninni ekki sko. Ég reyni að nálgast öll mót eins. Undirbúa mig eins fyrir öll mót, þannig að þetta sé bara allt svona eins fyrir manni“.
Hvernig ertu stemmdur fyrir EM?
„Ég er bara nokkuð vel stemmdur. Tímabilið búið að vera smá upp og niður en ég ætla bara að hafa trú að EM verði gott mót. Ég er bara mjög vel stemmdur“.
Ertu búin að setja þér einhver markmið fyrir EM?
„Markmiðið er auðvitað að komast í úrslit en miðað við hvernig tímabilið er búið að vera þá held ég kannski setji mér það markmið að mögulega bæta innanhússárangurinn minn, ég held að það sé skref eitt. Segjum markmiðið sé að fara yfir 7,60 m þá er ég ánægður“.
Ertu með rútínu á keppnisdegi sem þér finnst hjálpa þér að komast í gírinn?
„Ég er kannski ekki með einhverja heilaga rútínu en jú mér finnst mjög gott að fá mér amerískar pönnukökur með nóg af sírópi á morgnana og svo bara góð peppandi tónlist klikkar seint í upphitun“.
Hvenær ertu svo að keppa?
„Ég keppi í undankeppninni á fimmtudaginn kl. 19:30 á íslenskum tíma.“
Viðtalið við Daníel Inga má sjá hér.
Sýnt verður frá undankeppni langstökksins á ruv.is.
Tímaseðil Evrópumeistaramótsins má sjá hér.