Á föstudaginn síðasta var lokahópur þeirra keppenda sem fara á Ólympíuleikana í París kynntur til leiks. Leikarnir hefjast í lok mánaðar en Ísland mun eiga fimm keppendur í heildina og þar á meðal verður kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR). Erna verður fyrsti kvenkyns kúluvarpari sem keppir fyrir Íslandshönd á leikunum en hún á Íslandsmetið í greininni bæði innan- og utanhúss. Utanhúss met hennar er frá árinu 2023 og er 17.92 m. en utanhúss metið bætti hún á MÍ á Akureyri um daginn og er aðeins sentimeter frá innanhússmetinu eða 17,91m.
“Ég er ofboðslega ánægð að komast á leikana, þetta er búið að vera draumur rosalega lengi og er auðvitað draumur hjá flestu frjálsíþróttafólki. Ég man eftir því að hafa fylgst með Ásdísi Hjálmsdóttur árið 2008 og auðvitað Óðni árið 2012. Á þeim tíma var hann íþróttakennarinn minn og mér fannst það alveg geggjað. Ég hef alltaf litið upp til fólks sem hefur náð á Ólympíuleikana og er spennt að vera að fara sjálf núna. Ég byrjaði níu ára á frjálsíþróttanámskeiði á sumrin, svo fannst mér alltaf ótrúlega gaman að keppa á Gogga Galvaska. Eftir það æfði ég og keppti á sumrin. Fannst geggjað að fá pásu frá handboltanum og þegar ég var 15 ára ákvað ég að fara alveg út í frjálsar og hef ekki snúið við síðan, fann mig strax í kastgreinum. Mig langar mjög mikið að komast í úrslit á Ólympíuleikunum og fá meira en þrjú köst, það væri auðvitað geggjað. Markmiðið er að gera mitt allra besta, vonandi fá bætingar en líka bara að njóta og hafa gaman. Taka inn reynsluna af þessu stóra móti og nota það fyrir næstu stóru mót á næstu árum. Vonandi fer ég á næstu Ólympíuleika líka,” sagði Erna Sóley.