Meistaramót Íslands í víðavangshlaupum fór fram í Laugardalnum í dag og var mikil stemming í dalnum. Hlaupinn var 1,5 km hringur sem byrjaði við tjaldsvæðið í Laugardalnum og var mest hlaupið í grasbrekkum og á malarstígum og var brautin nokkuð hæðótt. Vegna rigningar undanfarna daga var brautin nokkuð blaut en hópur vaskra hlaupara lét bleytu og kulda alls ekki stoppa sig og voru hlauparar mættir í miklu stuði í Laugardalinn í morgun.
Það voru Arnar Pétursson (Breiðablik) og Íris Dóra Snorradóttir (FH) sem komu fyrst í mark í karla-og kvennaflokki, en þar voru hlaupnir 9 km. Arnar kom í mark á tímanum 00:31:25 og Íris Dóra kom í mark á tímanum 00:36:42. Annar í karlaflokki var Þorsteinn Roy Jóhannsson (FH) á tímanum 00:32:17 og þriðji var Fjölnir Brynjarsson (FH) á tímanum 00:32:53. Önnur í kvennaflokki var Íris Anna Skúladóttir (FH) á tímanum 00:37:41 og sú þriðja var Elín Edda Sigurðardóttir (ÍR) á tímanum 00:38:07.
Í flokki 18-19 ára pilta, þar sem hlaupnir voru 6 km, var það Bjarki Fannar Benediktsson (FH) sem stóð uppi sem sigurvegari á tímanum 00:22:31, annar var Grétar Smári Samúelsson (HSV) á tímanum 00:22:45 og sá þriðji var Sveinn Skúli Jónsson á tímanum 00:24:29. Í flokki 18-19 ára stúlkna var enginn skráður þátttakandi.
Í flokki 15-17 ára pilta, voru hlaupnir 3 km, og var heldur betur barist um sigurinn þar en þeir Davíð Freyr Magnússon (ÍR) og Sindri Karl Sigurjónsson komu báðir í mark á tímanum 00:10:34. Á eftir þeim kom Elías Mar Friðriksson á tímanum 00:10:48. Í flokki 15-17 ára stúlkna, sem einnig hlupu 3 km, var það Helga Lilja Maack (ÍR) sem kom fyrst í mark á tímanum 00:12:17 og önnur var Þorbjörg Gróa Eggertsdóttir (Breiðablik) á tímanum 00:14:12.
Í flokki 13-14 ára pilta, sem hlupu 1,5 km, var það Dagur Einar Maack (ÍR) sem stóð uppi sem sigurvegari á tímanum 00:005:57, annar var Tómas Ingi Kermen (ÍR) á tímanum 00:05:58 og sá þriðji var Matthías Derek Kristjánsson (ÍR) á tímanum 00:06:03. Í flokki 13-14 ára stúlkna, sem líka hlupu 1,5 km, var það Bryndís María Jónsdóttir (ÍR) sem kom fyrst í mark á tímanum 00:06:14 og næstar á eftir henni á tímanum 00:06:20 voru þær Emilía Rikka Rúnarsdóttir (ÍR) og Emilia Ólöf Jakobsdóttir (ÍR). Mikil spenna þarna líka.
Í flokki pilta 12 ára og yngri, sem hlupu 1,5 km var það Baldur Elías Norðfjörð Sveinsson (FH) sem kom fyrstur í mark á tímanum 00:05:55, annar var Már Ásgeirsson (Ármann) á tímanum 00:06:07 og þriðji var Jón Louie Freygang Thoroddsen (ÍR) á tímanum (00:06:09). Í flokki stúlkna 12 ára og yngri, sem einnig hlupu 1,5 km, var það Sóley Rósa Sigurjónsdóttir (UMSB) sem stóð uppi sem sigurvegari á tímanum 00:05:59, önnur var Eva Unnsteinsdóttir (Fjölnir) á tímanum 00:06:46 og þriðja var Elenóra Ósk Bjarnadóttir (Breiðablik) á tímanum 00:06:48.
Hrikalega flott úrslit og greinilega mikil spenna í mörgum flokkum, svona á að gera þetta! Til hamingju öllsömul með ykkar árangur.
Hægt er að sjá heildarúrslit hlaupsins hér.
Svo koma myndir af hlaupinu inn á Flickr síðuna okkar í vikunni.
Svo er gaman að segja frá því að annan laugardag í nóvember, 10. nóvember, fer Norðurlandameistaramótið í víðavangshlaupum fram í Vantaa í Finnlandi. Ísland mun eiga fulltrúa í þremur flokkum á mótinu. Í karlaflokki keppa Baldvin Magnússon (UFA), Arnar Pétursson (Breiðablik) og Stefán Kári Smárason (Breiðablik). Í kvennaflokki keppa Andrea Kolbeinsdóttir (ÍR) og Halldóra Huld Ingvarsdóttir (FH). Svo munum við eiga fulltrúa í U20 í kvennaflokki en það er hún Helga Lilja Maack (ÍR). Nánari fréttir og upplýsingar um Norðurlandameistaramótið munu koma þegar nær líður keppninni.