68 ár frá því að Vilhjálmur Einarsson vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum

Penni

2

min lestur

Deila

68 ár frá því að Vilhjálmur Einarsson vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum

Í dag, 27. nóvember, eru 68 ár frá því að Vilhjálmur Einarsson vann til silfurverðlauna á Ólympíuleikunum í Melbourne í Ástralíu. Að því tilefni er tilvalið að stikla aðeins á stóru um þennan mikla íþróttamann og hans afrek.

Það er örugglega óhætt að segja að Vilhjálmur sé einn af frægustu íþróttamönnum Íslandssögunnar og er það ekki síst silfurverðlaunum hans á Ólympíuleikunum að þakka, en það voru fyrstu verðlaun Íslendings á Ólympíuleikum. Auk þess þá er hann eini Íslendingurinn sem sett hefur Ólympíumet.

Vilhjálmur að stökkva á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956. Mynd fengin úr myndasafni ÍSÍ.

Vilhjálmur fæddir 5. júní 1934 og hóf hann sinn keppnisferil austur á Eiðum í kringum 1950. Þegar hann kemur svo suður til Reykjavíkur fer hann að æfa með ÍR og þar koma hans miklu stökkhæfileikar í ljós. Hann nær lágmarki í þrístökki fyrir Ólympíuleikana í Melbourne í Ástralíu 1956 og hreppir þar hin margfrægu silfurverðlaun sín með stökki upp á 16,26 m. Þetta stökk hans var Ólympíumet í tvær klukkustundir þar til til Brasilíumaðurinn Adhemar da Silva bætti það með sigurstökki sínu sem var 16,35 m.

Vilhjálmur var mjög sigursæll íþróttamaður og var einn af fremstu þrístökkvurum heims árin 1956-1962 og einnig var hann meðal bestu langstökkvara í Evrópu.

Vilhjálmur stekkur hér í Róm. Mynd fengin úr myndasafni ÍSÍ.

Meðal hans helstu afreka á íþróttasviðinu má nefna:

  • 2. sæti á Ólympíuleikunum i Melbourne árið 1956, þar sem hann stökk 16,26 m
  • 3. sæti á Evrópumeistaramótinu í Stokkhólmi árið 1958, þar sem hann stökk 16,00 m
  • 5. sæti á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960, þar sem hann stökk 16, 37 m
  • 6.sæti á Evrópumeistaramótinu í Belgrad árið 1962, þar sem hann stökk 15,62 m.

Vilhjálmur setti núverandi Íslandsmet í þrístökki utanhúss árið 1960 þegar hann stökk 16,70 m.

Mynd fengin úr myndasafni ÍSÍ.

Það er örugglega óhætt að segja að Vilhjálmur hafi verið mikil fyrirmynd fyrir annað íþróttafólk og ákeðinn frumkvöðull þegar hann sýndi það og sannaði að íslenskt íþróttafólk getur svo sannarlega unnið til verðlauna á alþjóðlegum stórmótum.

Að lokum er vert að nefna það að Vilhjálmur var sá fyrsti til að vera valinn íþróttamaður ársins og var það 20. janúar 1956, og hlaut hann þá nafnbót fjórum sinnum í viðbót, árin 1957, 1958, 1960 og 1961. Hann var svo fyrsti afresksíþróttamaðurinn sem útnefndur var í Heiðurshöll ÍSÍ þann 28. janúar 2012.

Stórkostlegur íþróttamaður hann Vilhjálmur Einarsson og eins og segir, mikil fyrirmynd fyrir kynslóðirnar sem á eftir honum komu.

Á heimasíðu RÚV er að finna skemmtilegt innslag frá 2012 þar sem Vilhjálmur var heimsóttur og fer yfir íþróttaferil sinn.

Penni

2

min lestur

Deila

68 ár frá því að Vilhjálmur Einarsson vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit