Íslenskt frjálsíþróttafólk var á faraldsfæti í liðinni viku og stóð sig nokkuð vel.
Sindri Hrafn í 2. sæti á móti í Frakklandi
Spjótkastarinn Sindri Hrafn Guðmundsson keppti á Meeting de Sotteville í Frakklandi í síðustu viku og átti hann mjög gott mót þar en hann endaði í 2. sæti með kast upp á 79,17 m. Þetta mót er svokallað B-mót og gefur 2. sætið því slatta af stigum sem setur Sindra í góða stöðu á listanum „Road to Tokyo“ en HM í frjálsum fer fram í Tókýó í september nk.
Daníel Ingi og Guðbjörg Jóna stóðu sig vel á móti í Finnlandi um helgina
Langstökkvarinn Daníel Ingi Egilsson og spretthlauparinn Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kepptu á Motonet GP Joensuu í Finnlandi núna um helgina.
Daníel Ingi átti flotta stökkseríu, með öll stökk sín gild, og lengsta stökkið hans var 7,53 m.
Guðbjörg Jóna er á svakalegri siglingu í 400 m hlaupinu og var með enn eina bætinguna en hún kom í mark á 54,38 sek, sem er næstum hálfrar sekúndu bæting hjá henni. Virkilega vel gert og gaman að sjá Guðbjörgu koma svona sterka til baka eftir erfið meiðsli. En hún var í mjög einlægu viðtali um daginn þar sem hún kom m.a. inn á erfiðleikana sem hún hefur gengið í gegnum undanfarin misseri.
Hvað er framundan?
Héraðsmót HSK fer fram dagana 15.-16. júlí nk. á Selfossvelli, en um er að ræða global calendar mót og gildir því árangur sem næst á mótinu sem lágmörk inn á stórmót. Mótið er héraðsmót og er stigakeppni milli aðildarfélaga sambandsins. Aðeins félagar í aðildarfélögum HSK geta safnað stigum og unnið héraðsmeistaratitil. Gestaþátttaka er heimil á mótinu.
Evrópumeistaramót U23 fer fram dagana 17.-20. júlí í Bergen í Noregi. Það eru fimm íslenskir keppendur sem taka þátt á mótinu.
- Hera Christensen – kringlukast
- Birta María Haraldsdóttir – hástökk
- Eva María Baldursdóttir – hástökk
- Júlía Kristín Jóhannesdóttir – 100 m grindahlaup
- Arndís Diljá Óskarsdóttir – spjótkast
Nánari frétt um EM U23 og íslenska íþróttafólkið birtist seinna í dag.