Viðurkenningar fyrir afrek í millivegalengda- og langhlaupum 2024

Patrekur Ómar tekur á móti viðurkenningu sinni frá Fríðu Rún Þórðardóttur stjórnarkonu í Framförum

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Viðurkenningar fyrir afrek í millivegalengda- og langhlaupum 2024

Framfarir, hollvinafélagi millivegalengda- og langhlaupara, hefur veitt eftirfarandi hlaupurum viðurkenningar fyrir árið 2024.

Aníta Hinriksdóttir (FH) var valin hlaupari ársins í kvennaflokki árið 2024 fyrir hennar framúrskarandi árangur þegar hún hljóp 1500 m á 4:18,50 mínútum sem gefur 1081 stig skv.  stigatöflu World Athletics, en það hljóp hún á Norðurlandameistaramótinu innanhúss í febrúar 2024. Í 1500 m hlaupi utanhúss hljóp hún á 4:19,14 mín sem gefur 1057 stig, en það hljóp hún einnig á Norðurlandameistaramótinu sem fram fór í maí 2024 og þar gerði hún sér lítið fyrir og hlaut Norðurlandameistaratitilinn í greininni. Þetta er besti árangur Anítu síðan 2019 en hún á nú Íslandsmetin í 600 m, 800 m, 1000 m og 1500 m innanhúss, og 800 m, 1500 m og 1 mílu utanhúss.

Baldvin Þór Magnússon (UFA) var valinn hlaupari ársins í karlaflokki en Baldvin Þór átti mjög farsælt tímabil í fyrra og setti fjölda Íslandsmeta. Í 1500 m hlaupi innahúss náði Baldvin 1142 stigum, í 5000 m hlaupi utanhúss 1136 stigum, 1500 m hlaupi utanhúss 1108 stigum og í 5 km götuhlaupi 1060 stigum. Þess má einnig geta að Baldvin hlaut silfurverðlaun í 3000 m hlaupi á Norðurlandameistaramótinu innanhúss og var aðeins 34/100 frá lágmarki á EM utanhúss í Róm. Baldvin á nú Íslandsmetin í 1500 m, mílu, 3000 m og 5000 m innanhúss og utanhúss á hann metin í 1500 m, 3000 m, 5000 m, 5 km og 10 km á götu. Af þessum metum voru þrjú sett árið 2024 og tvö í ár og var Baldvin fyrstur Íslendinga til að hlaupa 1500 m utanhúss á undir 3:40 mín.

Framfaraverðlaun ungmenna voru einnig veitt og er það metið út frá World Athletics stigatöflu hver bætti sig mest á árinu.

Í piltaflokki var það Patrekur Ómar Haraldsson (Breiðablik) sem hlaut viðurkenninguna, en hann bætti sig mest milli ára í 800 m hlaupi innanhúss þegar hann hljóp á 2:04.70 mín sem var bæting um rétt rúmar 13 sekúndur. Patrekur Ómar er fæddur 2009 og er árangur hans sá ellefti besti hjá 15 ára pilti í 800 m hlaupi frá upphafi og besti árangur síðan 2015. Í 5 km götuhlaupi er hann í 6. sæti með tímann 18:18 mín, flottur árangur það.

Eyja Rún Gautadóttir hlaut viðurkenningu vegna mestu framfara 2024 í stúlknaflokki. Hún sýndi mestu framfarirnar í 800 m hlaupi utanhúss þar sem hún bætti sig úr 2:30,05 mín í 2:17,86 mín. Frábær árangur það hjá Eyju Rún sem fædd er 2009 en hún keppir ekki aðeins í lengri vegalengdum heldur einnig í langstökki og grindahlaupi. Eyja Rún býr í  Svíþjóð en keppir fyrir UMSB þegar hún er á Íslandi. Árangur Eyju 2024 setti hana í 8. sæti á íslenskri afrekaskrá 15 ára stúlkna frá upphafi og besti árangur í 2 ár eða síðan Ísold Sævarsdóttir hljóp á 2:13.96 mín en fyrir þann árangur hlaut hún Framfaraviðurkenningu stúlkna 2022.

Óskum þessu frábæra íþróttafólki innilega til hamingju með vel verðskuldaða viðurkenningu fyrir árangur sinn árið 2024.

Um Framfarir

Í október árið 2002 komu saman nokkrir eldhugar og áhugamenn um millivegalengdir og langhlaup og stofnuðu hollvinafélagið Framfarir. Með stofnun félagsins vildu frumkvöðlarnir leggja sitt lóð á vogarskálar til frekari framfara í lengri hlaupavegalengdum á Íslandi. Síðan þá hafa Framfarir staðið fyrir árlegum viðurkenningum auk viðburða á við Víðavangshlaupaseríu Framfara og Brooks sem fram fer á hverju hausti, m.a. sem undirbúningur fyrir Víðavangshlaup Ísland og Norðurlandamót í víðavangshlaupum.

Markmið

Aðalmarkmið félagsins er að vekja athygli á millivegalengda- og langhlaupum bæði sem íþróttagrein og tómstundagamni. Efla unglingastarf og framfarir ungmenna og skapa samstöðu meðal hlaupara í lengri vegalengdum, jafnt þeirra sem stefna á alþjóðleg afrek og hinna sem stunda hlaup sér til skemmtunar og heilsubótar. Til frekari markmiða má telja að verðlauna hlaupara fyrir Íslandsmet í Ólympískum hlaupagreinum, annan góðan árangur og styðja við bakið á þeim fjárhagslega eins og félagið hefur bolmagn til. Bættur árangur á alþjóðlegum vettvangi er einnig mikið metnaðarmál Framfara. Efling fræðslustarfs og sameiginlegir fundir hlaupara og áhugafólks um hlaup er einnig á markmiðalista félagsins.

Einnig má telja að það gagnist öllum að skapa vettvang skoðanaskipta netleiðis og með sameiginlegum fræðslu- og spjallfundum, enda læri menn þannig hver af öðrum. Síðast en ekki síst má nefna eflingu á þátttöku allra óháð aldursflokki í almenningshlaupum en forvarnarstarf íþróttarinnar er þar hvað mest.

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Viðurkenningar fyrir afrek í millivegalengda- og langhlaupum 2024

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit