„Það er alltaf góð stemming fyrir þessu hlaupi“ segir Baldvin Magnússon sem er á leiðnni á EM í víðavangshlaupi

Penni

3

min lestur

Deila

„Það er alltaf góð stemming fyrir þessu hlaupi“ segir Baldvin Magnússon sem er á leiðnni á EM í víðavangshlaupi

Baldvin Magnússon (UFA) hefur verið valinn til að taka þátt fyrir Íslands hönd á Evrópumeistaramótinu í víðavangshlaupi sem fram fer í Antalya í Tyrklandi 8. desember nk. Þetta er í fyrsta skipti sem EM í víðavangshlaupi fer fram í Tyrklandi og er þetta syðsti keppnisstaður mótsins í 30 ára sögu þess. Hlaupið er í Dokuma-garðinum í norðurhluta Antalya og er brautin 1500 m og að mestu flöt en með sandi og leðju, eins og góðri víðavangsbraut sæmir, og hlaupa karlar og konur 5 hringi eða 7500 m.

Á mótinu keppa sterkustu víðavangshlauparar Evrópu og eru nokkur stór nöfn á listanum í ár og þar ber helst að nefna Norðmanninn Jakob Ingebrigtsem en hann varð m.a. Evrópumeistari í víðavangshlaupi 2022 og 2021. Auk hans er m.a. Evrópumeistarinn frá því í Brussel í fyrra, Karoline Bjerkeli Grøvdal frá Noregi, skráð til leiks, en hún hefur verið meðal þriggja efstu í kvennaflokki á síðustu átta Evrópumeistaramótum og staðið upp sem sigurvegari síðastliðin þrjú ár. Sjá hér skemmtilega frétt hjá evrópska frjálsíþróttasambandinu um þá sterku hlaupara sem taka þátt í ár. Hér er svo hægt að sjá allskyns skemmtilegar og áhugaverðar fréttir og upplýsingar tengdar hlaupinu.

Það er sannarlega flottur hópur hlaupara sem mun hlaupa í Antalya aðra helgina í desember og er Baldvin heldur betur einn af þeim. Baldvin er einn af okkar afreksíþróttamönnum og hefur staðið sig vel undanfarið, innan vallar sem utan, en núna fyrir nokkrum vikum var hann einn af sex Íslendingum sem tók þátt í Norðurlandamótinu í víðavangshlaupi í Finnlandi og náði hann þar bestum árangri Íslendinganna þegar hann var sjötti í mark í karlaflokki. Baldvin tók þátt í Evrópumeistarmótinu í víðavangshlaupi í fyrra í Brussel og stóð sig með stakri prýði og endaði þar í 16. sæti af 88 keppendum.

En hvað segir Baldvin um komandi Evrópumeistaramót?

Við heyrðum stuttlega í honum Baldvini varðandi komandi Evrópumeistaramót og fleira.

Baldvin segist vera vel stemmdur fyrir hlaupinu og segir að æfingar undanfarið hafi gengið vel.

„Það er alltaf góð stemning fyrir þessu hlaupi, þetta er keppnin sem margir byrja að hugsa um í kringum lok sumarsins sem næsta markmið enda er þetta eina meistarakeppnin á þessum tíma árs sem hlauparar marksetja“ segir Baldvin spurður um stemminguna fyrir Evrópumeistaramótinu.

Eins segir hann að þetta sé keppni sem laðar að sterka hlaupara og að úrslitin geti verið skemmtileg þar sem keppni í víðavangshlaupum er ólík annarri keppni í frjálsíþróttum hvað stöðlun greinarinnar varðar, þar sem brautin er aldrei nákvæmlega eins og veður getur haft mikil áhrif á brautina sjálfa.

Þegar Baldvin er spurður út í NM í víðavangshlaupi sem fram fór fyrr í nóvembermánuði segir hann „NM var svekkjandi, tapaði þar fyrir strákum sem ég á ekki að tapa fyrir“. Eins var hann ansi óheppin með ferðalagið sitt til Finnlands en hann lenti í 8 klukkutíma seinkun á flugi, og á tímabili var tvísýnt hvort hann mundi ná á keppnisstað í tæka tíð. En það hafðist og sagði fararstjóri hópsins úti að það hefði verið aðdáunarvert að fylgjast með því að þrátt fyrir þetta allt saman þá missti Baldvin aldrei gleðina og ánægjuna. Greinilega flottur íþróttamaður þarna á ferð, lætur hið óvænta ekki slá sig of mikið út af laginu.

En hvað er framundan hjá hlauparanum?

„Stefnan er sett á innanhússtímabilið með markmiðið EM í 3000m eftir þetta og svo æfingabúðir í apríl/ maí í undirbúning fyrir utanhússtímabilið. Kem heim til Íslands yfir jólin og er virkilega spenntur fyrir því“ segir Baldvin að lokum.

Greinilega nóg um að vera hjá Baldvini og það verður virkilega gaman að fylgjast með honum keppa í Antalya þann 8. desember nk. en hann hleypur kl. 14:11 að staðartíma, sem er kl. 11:11 að íslenskum tíma.

Heimasíðu mótsins er að finna hér.

Beint streymi frá hlaupinu verður að finna hér.

Penni

3

min lestur

Deila

„Það er alltaf góð stemming fyrir þessu hlaupi“ segir Baldvin Magnússon sem er á leiðnni á EM í víðavangshlaupi

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit