Bikarkeppni FRÍ hófst í dag á Sauðárkróki og í dag var keppt í 14 greinum og eftir fyrri daginn er staðan þannig að lið FH leiðir stigakeppnina með 90 stig, lið ÍR er í öðru sæti með 83 stig og Fjölnir/UMSS er í þriðja sæti með 75 stig.
Fyrsta grein dagsins var sleggjukast karla og þar sigraði Hilmar Örn Jónsson (FH) með kasti upp á 72,35 m Annar var Ingvar Freyr Snorrason (ÍR) sem kastaði 46,39 m og þriðji var Jón Bjarni Bragason (Breiðablik) en hann kastaði 43,81 m.
Stangarstökk karla sigraði Gunnar Eyjólfsson (FH) sem stökk 4,35 m. Annar var Grétar Björn Unnsteinsson (Fjölnir/UMSS) en hann stökk 4,15 m og þriðji var Úlfar Jökull Eyjólfsson (Ármann) sem stökk einnig 4,15 og er það persónulegt met hjá honum.
Fyrsta hlaupagrein dagsins var 100 m grindahlaup kvenna og þar sigraði María Helga Högnadóttir (FH) en hún kom í mark á 14,18 sek. Önnur var Hekla Magnúsdóttir (ÍR) á 14,90 sek og þriðja var Helga Fjóla Erlendsdóttir (HSK/Selfoss) sem kom í mark á 15,69 sek. En þessi árangur hjá þeim öllum er persónulegt met, frábært grindahlaup hjá konunum í dag.
Í 110 m grindahlaupi karla kom Þorleifur Einar Leifsson (Breiðablik) fyrstur í mark á 14,49 sek sem er frábær persónuleg bæting og jöfnun á þriðja besta árangri sögunnar hjá íslenskum karli, virkilega vel gert hjá Þorleifi. Annar var Ísak Óli Traustason (Fjölnir/UMSSS) á 14,89 sek og þriðji í mark var Ívar Kristinn Jasonarson (ÍR) á 15,21 sek.
Irma Gunnarsdóttir (FH) sigraði langstökk kvenna með stökki upp á 5,94 m. Önnur var Christina Alba Marcus Hafliðadóttir (Fjölnir/UMSS) sem stökk 5,85 m og þriðja var Júlía Kristín Jóhannesdóttir (Breiðablik) með stökk upp á 5,75 m.
Sindri Karl Guðmundsson (FH) sigraði spjótkast karla en hann kastaði 75,53 m. Annar var Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) sem kastaði 62,77 m og þriðji með kast upp á 52,01 m var Daníel Breki Elvarsson (HSK/Selfoss).
Í kúluvarpi kvenna kastaði Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) lengst og sigraði með kasti upp á 15,60 m. Önnur var Arna Rut Arnarsdóttir (Fjölnir/UMSS) en hún kastaði 12,10 m og þriðja var María Helga Högnadóttir sem kastaði 11,74 m.
Embla Margrét Hreimsdóttir (FH) sigraði 1500 m hlaup kvenna en hún kom í mark á 4:38,08 mín sem er persónuleg bæting utanhúss. Önnur var Guðný Lára Bjarnadóttir (Fjölnir/UMSS) á tímanum 4:48,90 mín og Helga Lilja Maack (ÍR) kom þriðja í mark á 4:54,35 mín.
Kristinn Þór Kristinsson (HSK/Selfoss sigraði 1500 m hlaup karla en hann kom í mark á 4:01,31 mín. Annar var Daði Arnarson (Fjölnir/UMSS) á tímanum 4:03,35 mín og Daníel Snær Eyþórsson (FH) kom þriðji í mark á 4:07,18 mín.
Í spjótkasti kvenna kastaði Arndís Diljá Óskarsdóttir (FH) lengst og sigraði með kasti upp á 49,77 m. Önnur var María Rún Gunnlaugsdóttir (ÍR) en hún kastaði 41,43 m og þriðja var Elena Soffía Ómarsdóttir (UFA/Samherji) sem kastaði 38,47 m.
Þorleifur Einar Leifsson (Breiðablik) sigraði langstökk karla með stökki upp á 6,74 m. Annar var Arnar Logi Brynjarsson (ÍR) sem stökk 6,47 m sem er virkilega góð persónuleg bæting utanhúss og þriðji með stökk upp á 6,30 m var Gunnar Eyjólfsson (FH).
Sigursteinn Ásgeirsson (ÍR) sigraði kúluvarp karla en hann kastaði 16,61 m. Annar var Sindri Lárusson (UFA/Samherji) sem kastaði 14,39 m og þriðji með kast upp á 13,01 m var Ísak Óli Traustason (UMSS).
Ísold Sævarsdóttir (FH) sigraði 400 m hlaup kvenna en hún kom í mark á 56,33 sek, sem er hennar besti tími í 400 m hlaupi. Önnur var Guðbjörg Jóna Bjarndóttir (ÍR) á 57,06 sek og Eyrún Svala Gustavsdóttir (Breiðablik) kom þriðja í mark á 59,76 sek.
Sæmundur Ólafsson (ÍR) sigraði 400 m hlaup karla en hann kom í mark á 49,49 sek. Annar, á persónulegu meti, var Kjartan Óli Bjarnason (Fjölnir/UMSS) en hann kom í mark á tímanum 50,05 sek og Leó Örn Þórarinsson (FH) kom þriðji í mark á 51,43 sek, sem einnig er persónulegt met.
Virkilega skemmtilegur dagur á frjálsíþróttavellinum á Sauðárkróki í dag og fjörið heldur áfram á morgun. Heildarúrslit dagsins má sjá hér.
Bikarkeppni 15 ára og yngri hefst klukkan 10 í fyrramálið, og svo heldur bikarkeppnin áfram klukkan 13:20 á morgun.