Frjálsíþróttasamband Íslands hefur nú birt lágmörkin fyrir æfingahóp unglingalandsliðs FRÍ fyrir tímabilið 2025–2026. Lágmörkin gilda frá 1. maí 2025 til 1. maí 2026 og má nálgast á heimasíðu FRÍ.
Búið er að fara yfir árangur íþróttafólks með árangur á utanhússtímabilinu 2025 og birta lista sem er aðgengilegur á vef FRÍ. Byrjað verður að taka út íþróttafólk með innanhússárangur í næstu viku. Nú þegar eru rúmlega 60 íþróttamenn frá 15 félögum komnir með lágmark í fjölda greina.
Lágmörkin voru unnin með hliðsjón af kröfum NM U20 og byggja á árangri frá mótinu síðustu þrjú ár. Notuð voru stig út frá þessum árangri í elsta aldursflokki og beitt var Tyving-stigakvarða við útreikninga. Eldri lágmörk voru höfð til viðmiðunar. Þá dettur fjölþraut út úr lágmörkunum þar sem ekki er keppt í greininni á NM U20.
Þetta er jafnframt síðasta skiptið sem þessi vinnurammi er notaður. Unnið er að heildstæðri endurskoðun á aldursskiptingu, lágmörkum og lágmarkstímabili þannig að þau endurspegli betur kröfur og þróun NM U20 og umhverfis íslenskra frjálsíþróttaungmenna.
Óskum öllu þessu frábæra íþróttafólki með þennan flotta árangur og sendum góðar kveðjur til þeirra fyrir innanhússtímabilið.