Núna fyrr í kvöld lauk Evrópumeistaramóti U23 í Bergen í Noregi og var kringlukast kvenna meðal síðustu greina dagsins og þar átti okkar kona, Hera Christensen, frábært mót. Hera átti risakast í þriðju umferð þegar hún kastaði kringlunni 53,44 m, en það er hennar næstlengsta kast á ferlinum og ekki langt frá hennar besta árangri sem er 53,80 m.
Kastið upp á 53,44 m var hennar lengsta kast í dag og hafnaði hún í fimmta sæti í keppninni, aðeins tveimur sentímetrum frá fjórða sætinu, sem er algjörlega frábær árangur hjá þessum unga kringlukastara sem er á mikilli uppleið og á nóg inni.
Eins og Hera sagði í gær, eftir að hafa kastað sig inn í úrslitin, þá hefur henni ekki gengið nógu vel á þeim stórmótum unglinga sem hún hefur keppt á hingað til og því var mjög sætt að komast í úrslit núna. Virkilega gaman að sjá Heru blómstra á stórmóti, bæði í undankeppninni og í dag í úrslitunum. Vel gert, Hera.
Þessi árangur Heru er með þeim betri sem íslenskir keppendur hafa náð á EM U23. Þess má t.d. geta að kringlukastarinn og Ólympíufarinn Guðni Valur Guðnason varð einmitt fimmti í kringlukasti á EM U23 árið 2017 og sleggjukastarinn Elísabet Rut Rúnarsdóttir varð fimmta í sleggjukasti á EM U23 árið 2023, en ári seinna varð hún háskólameistari í greininni á NCAA. Þannig að það eru nú ekki leiðinleg spor að feta hjá henni Heru að fylgja þessum tveimur kastsnillingum.
Við óskum Heru alveg innilega til hamingju með þennan frábæra árangur.