Evrópumeistaramótið innanhúss hófst í gær, fimmtudaginn, 6. mars, í Apeldoorn í Hollandi. Það eru þrír íslenskir keppendur sem taka þátt í ár og þeirra á meðal er kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir. Erna Sóley er enginn nýgræðingur þegar kemur að keppni á stórmótum hvort sem það er í ungmennaflokki eða fullorðinsflokki, en þetta er samt sem áður hennar fyrsta Evrópumeistaramót innanhúss.
Erna Sóley keppti á sínu fyrsta stórmóti sumarið 2017 þegar hún keppti á Evrópumeistaramóti U20, en hún keppti á sama móti tveimur árum seinna eða sumarið 2019. Sumarið 2018, keppti hún á heimsmeistaramóti U20. Hennar fyrsta stórmót í fullorðinsflokki var Evrópumeistaramótið í Munchen sumarið 2022. Árið 2024 var svo heldur betur stórmótaár hjá henni Ernu, en þá keppti hún á heimsmeistaramótinu innanhúss í Glasgow í byrjun mars, Evrópumeistaramótinu utanhúss í Róm í júní og svo á sjálfum Ólympíuleikunum í París í ágúst.
Erna Sóley er margfaldur Íslands-og bikarmeistari í kúluvarpi bæði innanhúss og utanhúss og einnig Íslandsmethafi bæði innanhúss (17,92 m) og utanhúss (17,91 m).
Besti árangur Ernu Sóleyjar innanhúss er 17,92 frá því í febrúar 2023.
Besti árangur Ernu Sóleyjar á tímabilinu er 17,63 m frá því 9. febrúar sl.
Hvernig ertu stemmd fyrir EM?
„Ég er mjög vel stemmd og ég get bara ekki beðið eftir að fara að keppa. Mér finnst þetta ofboðslega spennandi mót en ég hef aldrei keppt á EM innanhúss áður. Það er eina stórmótið sem ég á eftir að keppa á þannig að ég er rosalega spennt að fara að keppa þar“.
Hvernig undirbýrð þú þig fyrir svona stórmót? Einhver munur á því og að undirbúa sog fyrir önnur mót?
„Þetta er náttúrulega stærra heldur en öll önnur mót og maður verður að gera ráð fyrir því í undirbúningnum andlega séð að það er fleira fólk að styðja mann, það eru fleiri í kringum mann að fylgjast með og maður býr sig undir það. En annars er bara undirbúningurinn eins og fyrir önnur mót og maður reynir bara að gera sitt besta“.
Hvernig undirbýrðu þig andlega fyrir svona stórmót?
„Ég nota rosa mikið imagery. Á kvöldin reyni ég alltaf að ímynda mér köstin og ég tek æfingaköst, ég ímynda mér að ég sé í salnum/á vellinum þar sem ég er að keppa, ég ímynda mér að vera í kringum keppendurna og tek köst eins og ég tek fyrir mót. Þannig að ég tek alveg æfingar (í huganum) á kvöldin fyrir mót“.
Ertu með rútínu á keppnisdegi sem þér finnst hjálpa þér að komast í gírinn?
„Já, bara borða góðan mat og fá mér gott kaffi. Mér finnst ofboðslega gott ef ég finn eitthvað gott kaffihús fyrir keppni, ef ég get gert það. Síðan er það bara að koma mér í gírinn og hlusta á góða tónlist og vera bara slök“.
Ertu búin að setja þér einhver markmið fyrir EM?
„Já það eru markmið. Ég ætla að gera mitt besta. Ég er kannski með háar væntingar því ég veit að ég get gert vel. En það er náttúrulega bara markmið að fara í úrslit, eins og það hefur verið undanfarin stórmót og það vonandi rætist“.
Hvenær ertu svo að keppa?
„Ég er að keppa klukkan 9:50 að íslenskum tíma á laugardaginn. Fylgist með á RÚV!“
Viðtalið við Ernu Sóleyju má sjá hér.
Sýnt verður frá kúluvarpskeppninni á RÚV og RÚV2.
Tímaseðil Evrópumeistaramótsins má sjá hér.