Freyr Ólafsson formaður FRÍ átti stórafmæli í gær, 27. október, þegar hann varð fimmtugur. Óskum við honum innilega til hamingju meða afmælið!
Freyr hefur verið viðriðinn frjálsíþróttir frá unga aldri en hann hóf sinn frjálsíþróttaferil hjá Ungmennafélaginu Dagsbrún í Austur-Landeyjum á barnsaldri. Seinna meir var hann í unglingalandsliðinu og síðar landsliðinu í frjálsum, og keppti fyrir Íslands hönd í stangarstökki.
Freyr á skráðan árangur í flestum greinum frjálsíþrótta, greinilega fjölhæfur íþróttamaður. Svo er spurning að reima á sig skóna núna og sækja sér árangur í þeim greinum sem eftir eru, aldrei of seint.
Hann á einnig að baki flottan og farsælan þjálfaraferil og lengst af þjálfaði hann börn og unglinga hjá Ármanni hér í Laugardalnum í Reykjavík.
Síðast en ekki síst ber að nefna hversu svakalega mikill félagsmálamaður hann Freyr er og hefur hann verið mjög virkur í félagsmálum frjáslíþrótta alla sína tíð. Hann var formaður frjálsíþróttadeildar Ármanns um árabil, meðlimur í Frjálsíþróttaráði Reykjavíkur, ötull í allskyns mótahaldi og hefur svo undanfarin 8 ár verið formaður FRÍ. Hann var fyrst kosinn formaður FRÍ árið 2016 og var svo síðast endurkjörin á frjálsíþróttaþinginu á Sauðárkróki í mars sl.
Kæri Freyr, við óskum þér innilega til hamingju með stórafmælið og megir þú halda áfram um ókomna tíð að sinna frjálsíþróttum á Íslandi af þeirri hugsjón og miklu álúð, og þeim metnaði sem einkennir þig.