Í kringum áramótin er venja að heiðra íþróttafólk ársins á hinum ýmsu stöðum og eru sveitarfélögin þar engin undantekning. Flest sveitarfélög hafa nú þegar tilkynnt um hver það eru sem eru íþróttafólk ársins 2024 og þar eiga frjálsíþróttirnar nokkra fulltrúa.
Langstökkvarinn Daníel Ingi Egilsson (FH) var valinn íþróttakarl Hafnarfjarðar 2024.
Kúluvarparinn Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) var valin íþróttakona Mosfellsbæjar 2024.
Spretthlauparinn Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) var valin íþróttakona Seltjarnarness 2024.
Kúluvarparinn Benedikt Gunnar Jónsson (ÍR) var valinn íþróttamaður Strandabyggðar 2024.
Daníel Ingi
Daníel Ingi átti frábært ár og var hann valinn frjálsíþróttakarls ársins 2024 á uppskeruhátíð FRÍ í desember sl. Hann setti glæsilegt Íslandsmet á NM í Malmö sl. vor, þegar hann stökk 8,21 m og bætti þar með 30 ára gamalt Íslandsmet Jóns Arnars Magnússonar um 21 cm. Með þessu stökki tryggði hann sér einnig Norðurlandameistaratitilinn og náði lágmarki inn á EM í Róm. Daníel Ingi keppti einnig á EM í Róm sl. sumar, og keppti þar í fyrsta skipti á stórmóti í fullorðinsflokki, og lenti þar í 14. sæti og var aðeins 3 cm frá því að komast í úrslit.
Á uppskeruhátíðinni hlaut hann einnig viðurkenningu sem stökkvari ársins í karlaflokki og fyrir stigahæsta afrrek ársins.

Erna Sóley
Erna Sóley átti heldur betur eftirminnilegt ár og var hún valin frjálsíþróttakona ársins á uppskeruhátíð FRÍ í desember sl. Erna Sóley keppti á Ólympíuleikunum í París sl. sumar og voru þetta hennar fyrstu Ólympíuleikar og endaði hún þar í 20. sæti með kast upp á 17,39 metra. Erna Sóley keppti einnig á EM í Róm í sumar og þar kastaði hún 16,26 m og endaði hún í 19. sæti. Erna Sóley bætti Íslandsmetið utanhúss á Meistaramóti Íslands á Akureyri í sumar þegar hún kastaði 17,91 m. Hún lenti í 2. sæti á NM í vor sem fram fór í Malmö þar sem hún kastaði 17,20 m. Hún náði frábærum árangri á HM innanhúss í Glasgow í vetur þar sem hún endaði í 14. sæti með kasti upp á 17,07 m. Erna lenti í 3. sæti á NM innanhúss í Bærum í Noregi í febrúar þar sem hún kastaði 17,52 m.

Eir Chang
Eir átt virkilega gott ára og var hún valin spretthlaupari ársins í kvennaflokki á uppskeruhátíð FRÍ í desember sl. Hljóp 200 m utanhúss á 24,30 sek (1007 stig) á NM U20 í Danmörku í sumar og innanhúss á 24.60 sek (1028 stig) á MÍ. Eir hljóp 400 m utanhúss á 55.01 sek (1012 stig) á NM í Malmö í vor og innanhúss á 55.52 sek (1028 stig) á RIG. Eir varð Norðurlandameistari U20 í 200 m og fékk bronsverðlaun í 400 m, varð Íslandsmeistari utanhúss í 200 m og 400 m og í 200 m innanhúss. Tíminn hennar í 400 m á NM, 55.01, var lágmark inn á HM U20 sem fram fór í Lima og keppti Eir þar í lok ágúst og náði sínum öðrum besta tíma í 400 m hlaupi.

Benedikt Gunnar
Benedikt Gunnar átti þvílíkt Íslandsmetaár, en hann setti hvorki meira né minna en fimm Íslandsmet á árinu. Hann er bikar- og Íslandsmeistari í sínum aldursflokki, bæði í kúluvarpi og kringlukasti. Benedikt vann gullverðlaun á Gautaborgarleikunum í Svíðþjóð og er talinn vera með 15 bestu kúluvörpurum heims í sínum flokki. Benedikt er í unglingalandsliðinu í frjálsíþróttum.

Við óskum þessu flotta íþróttafólki til hamingju með þessar viðurkenningar og með von um að nýtt ár færi þeim einnig frábæran árangur, sem nokkur þeirra hafa nú sannarlega sýnt í upphafi keppnistímabilsins.