Hera Christensen átti frábært mót á Evrópumeistaramóti U23 í Bergen í Noregi í síðustu viku. Hún kastaði kringlunni 53,44 metra í þriðju umferð úrslitanna – sitt næstlengsta kast á ferlinum – og endaði í 5. sæti í sterkum hópi bestu kastara Evrópu. Við ræddum við Heru um mótið, árangurinn og hvað sé fram undan.
Þú áttir frábært mót á EM U23 núna í síðustu viku, endaðir þar í 5. sæti og kastaðir næstlengsta kasti ferilsins – hvernig var þessi upplifun og hvernig fannst þér þú standa þig miðað við þín eigin markmið?
„Þetta var bara frábært mót. Það fór bara allt fram úr væntingum og það gekk allt upp. Markmiðið var að komast í úrslit og allt umfram það var bara bónus, þannig að þetta var bara frábært – geggjuð upplifun!“
Þú hefur talað um að fyrri stórmót hafi ekki gengið sem skyldi – hvað heldur þú að hafi breyst núna og hvað fór í gegnum hugann þegar þú náðir þessu flotta kasti í þriðju umferð úrslitanna?
„Ég held að ég hafi bara ekki verið alveg jafn stressuð, ég var yfirvegaðri. Það var líka fínt að vita að ég ætti annað EM U23 mót inni eftir tvö ár, þannig að það tók aðeins stressið af. Í þessu þriðja kasti var ég búin að ná góðu fyrsta kasti, þannig að ég ætlaði bara að vera slök og negla aðeins betur á það í öllum skrefunum – og það heppnaðist. Það var mjög gaman!“
Hvernig var stemningin á vellinum og í íslenska hópnum – hafði hún einhver áhrif á þína frammistöðu?
„Stemningin var frábær! Íslenski hópurinn var auðvitað ekki risastór, en við náðum allar rosalega vel saman. Svo þekki ég mjög marga í sænska liðinu og þau voru mjög dugleg að hvetja áfram líka og ég myndi segja að það hjálpaði rosalega mikið.“
Hvernig var undirbúningurinn fyrir mótið, bæði líkamlega og andlega?
„Við héldum bara áfram með venjulegar æfingar, tókum kannski styttri æfingar en fleiri. Annars héldum við okkur við það sem við höfum verið að gera – sem hefur bara gengið rosalega vel.“
Lærðir þú eitthvað af þessu móti sem þú tekur með þér áfram?
„Ég myndi t.d. segja að nýta stressið á góðan hátt en ekki slæman hátt – og ekki hugsa of mikið um hvað hinar eru að gera. Bara fókusa á mig og reyna að gera mitt besta.“
Hver eru næstu skref hjá þér í sumar og hvert stefnir þú til lengri tíma litið?
„Það er þannig séð bara eitt mót eftir, sem er MÍ á Selfossi í lok ágúst, en við ætlum mögulega að reyna að finna eitthvað mót fyrir það. Svo er auðvitað stefnan sett á Íslandsmet sem fyrst. Setur maður svo ekki markmiðið alltaf hátt? Stefna á Ólympíuleikana!“
Viðtalið við Heru má sjá hér.