Víðavangshlaupin hafa lengi verið órjúfanlegur hluti af íslenskum frjálsíþróttum og margir tengja þau við haustið, þegar dagana tekur að stytta og náttúran klæðist haustlitunum. Þetta eru skemmtileg hlaup sem höfða jafnt til reyndra hlaupara sem og þeirra sem vilja prófa sig áfram í fjölbreyttu hlaupi í fallegu umhverfi.
Víðavangshlauparöð Framfara og Fætur toga
Að venju mun víðavangshlauparöð Framfara og Fætur toga fara fram á höfuðborgarsvæðinu. Þar eru þrír viðburðir á dagskrá í september og október, allir á laugardögum kl. 10:00.
- 27. september – Ræktunarstöðin í Fossvogi
- 4. október – Vífilsstaðatún í Garðabæ
- 11. október – Borgarspítalinn í Reykjavík
Boðið er upp á tvær vegalengdir, stutt og langt hlaup. Styttra hlaupið er yfirleitt um 1 km en það lengra 6–7 km. Vegalengdirnar eru valdar með það í huga að höfða til sem flestra – bæði millivegalengda- og langhlaupara, auk þess sem þær henta hlaupurum á öllum aldri og getustigum.
Allar nánari upplýsingar og skráningu má finna inni á netskraning.is.
Víðavangshlauparöð á Akureyri
Á Akureyri heldur Fjallahlaupaþjálfun úti sinni víðavangshlauparöð. Þar verða einnig þrjú hlaup á laugardögum kl. 10:00 og í boði verða ólíkar vegalengdir.
- 4. október í Kjarnaskógi
- 11. október – staðsetning auglýst síðar
- 18. október – staðsetning auglýst síðar
Á þessa viðburði þarf bara að mæta og hafa gaman, engin skráning og ekkert þátttökugjald.
Meistaramót Íslands í víðavangshlaupi
Um miðjan október verður Meistaramót Íslands í víðavangshlaupi haldið í Laugardalnum, laugardaginn 18. október. Þar gefst keppendum á öllum aldri tækifæri til að spreyta sig í sínum aldursflokki.
- Piltar og stúlkur 12 ára og yngri – 1,5 km – Ræst klukkan 10:00
- Piltar og stúlkur 13-14 ára – 1,5 km – Ræst klukkan 10:15
- Piltar og stúlkur 15-17 ára – 4,5 km – Ræst klukkan 10:30
- Piltar og stúlkur 18-19 ára – 4,5 km – Ræst klukkan 10:30
- Karlar og konur 20 ára og eldri – 9 km – Ræst klukkan 11:00
Nánari upplýsingar og skráningu má finna inni á netskraning.is.
Við hvetjum öll sem áhuga hafa að taka þátt í hlaupunum í haust og kynnast þeirri skemmtilegu stemningu sem einkennir víðavangshlaupin.