Langhlaupanefnd FRÍ hefur ákveðið að bæta eftirfarandi hlaupurum við landslið Íslands í utanvegahlaupum sem tekur þátt á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum í Canfranc-Pirineos á Spáni dagana 25.-28. september.
Elísu Kristinsdóttur (UÍA) þarf vart að kynna fyrir hlaupurum en hún er það sem af er ári stigahæsta íslenska konan hjá ITRA og hefur sýnt bætingar sem setja hana ofarlega bæði á heims- og Evrópulista. Elísa hefur átt stórkostlegt hlaupasumar og er í gífurlega góðu formi. Langhlaupanefnd hefur ákveðið að bæta henni við liðið á þeirri forsendu að með henni búum við til mjög sterka kvennasveit í 82 km keppnishlaupinu. Sveit sem á að geta veitt allra bestu þjóðunum verðuga keppni. Í þessari vegalengd eru nú fyrir Andrea Kolbeinsdóttir (ÍR) og Guðfinna Björnsdóttir (UFA) og það þarf þrjá hlaupara til að mynda lið í sveitakeppni. Elísa Kristinsdóttir hefur sýnt að styrkur hennar er hvað mestur í lengri vegalengdum og því tilvalið að bæta henni í 82 km sveitina. Þannig að Andrea, Guðfinna og Elísa mynda þá dúndurkvennasveit í 82 km hlaupinu.

Langhlaupanefnd FRÍ hefur haft þá óskrifuðu reglu í gegnum árin að gæta eftir fremsta megni að kynjajafnrétti í landsliði Íslands í utanvegahlaupum. Því hefur nefndin jafnframt ákveðið að bæta við liðið karlhlauparanum Stefáni Pálssyni (Ármann). Stefán hefur líkt og Elísa sýnt eftirtektarverðan árangur á þessu ári og mun styrkja karlaliðið í 45 km vegalengdinni gífurlega.

Það verða því 6 konur og 6 karlar sem mynda landslið Íslands í utanvegahlaupum í ár á HM og hefur liðið aðeins einu sinni áður verið skipað jafn mörgum hlaupurum.
Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum fer fram 25.-28. september og því stutt í mót. Allir hlauparnir í íslenska liðinu eru klárir og ekki hefur komið til þess að kalla hafi þurft inn varamenn. Það verður því sannarlega spennandi að fylgjast með okkar allra besta fólki takast á við þá bestu í heimi í Canfranc-Pirineos á Spáni í lok september.
Landsliðið í utanvegahlaupum fyrir HM í september verður því skipað eftirfarandi íþróttafólki:
Karlar: |
Þorbergur Ingi Jónsson – 82 km |
Sigurjón Ernir Sturluson – 82 km |
Þorsteinn Roy Jóhannsson – 45 km |
Grétar Örn Guðmundsson – 45 km |
Halldór Hermann Jónsson – 45 km |
Stefán Pálsson – 45 km |
Konur: |
Andrea Kolbeinsdóttir – 82 km |
Guðfinna Björnsdóttir – 82 km |
Elísa Kristinsdóttir – 82 km |
Anna Berglind Pálmadóttir – 45 km |
Elín Edda Sigurðardóttir – 45 km |
Íris Anna Skúladóttir – 45 km |
Liðsstjóri verður Friðleifur Friðleifsson, formaður langhlaupanefndar FRÍ.