Stóri FRÍdagurinn haldinn í fyrsta sinn

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Stóri FRÍdagurinn haldinn í fyrsta sinn

Í gær, miðvikudaginn 7. maí, var Stóri FRÍdagurinn haldinn í fyrsta skipti í íþróttamiðstöðinni í Úlfarsárdal.

Stóri FRÍdagurinn er frjálsíþróttaviðburður fyrir 5.-7. bekk grunnskólanna sem samanstendur af boðhlaupum og stöðvaþjálfun þar sem krakkarnir fá tækifæri til að prófa ýmsar frjálsíþróttagreinar. Markmið Stóra FRÍdagsins er að kynna frjálsíþróttir fyrir krökkum á skemmtilegan og fjörugan hátt þar sem fjölbreytni frjálsíþróttanna skín í gegn.

Það er óætt að segja að þetta markmið hafi náðst í gær þegar tæplega hundrað 5. bekkingar úr skólunum þremur í Grafarholti, Dalskóla, Ingunnarskóla og Sæmundarskóla, mættu í íþróttahúsið í Úlfarsárdal og tóku þátt í Stóra FRÍdeginum.

Þau byrjuðu á að spreyta sig í boðhlaupi þar sem hörkukeppni var á milli liðanna átta sem krakkarnir mynduðu og þótti krökkunum það gaman í boðhlaupinu að þau báðu um að hlaupa nokkrar umferðir, og að sjálfsgögðu var orðið við því. Það var alveg augljóst að þarna voru miklir hlauparar á ferð, og ekki síður mikið keppnisfólk.

Það var mikil spenna í boðhlaupinu!

Eftir nokkrar umferðir af boðhlaupi var komin mikil stemming í hópinn og krakkarnir spenntir fyrir næsta hluta sem var stöðvaþjálfun þar sem þau fengu tækifæri til að prófa nokkrar frjálsíþróttagreinar í gegnum skemmtilegar og fjölbreyttar stöðvar. Í gær fengu krakkarnir að prófa spretthlaup, grindahlaup, langstökk, þrístökk, langstökk og þrístökk án atrennu og skulukast. Þar sem eitt af markmiðum dagsins er að sýna fjölbreytni frjálsíþróttanna þótti mikilvægt að hafa fjölbreyttar greinar í boði.

Mikið stuð var í stöðvaþjálfuninni þar sem krakkarnir prófuðu fjölda frjálsíþróttagreina.

Svo í lokin var komið að rúsínunni í pylsuendanum, keppni á milli skólanna þriggja í hringboðhlaupi. Þar kom keppnisskapið heldur betur í ljós og ekki síður hversu svakalega flott stuðningslið krakkarnir mynduðu fyrir sína skóla, þakið ætlaði að rifna af húsinu undir lokin.

Virkilega vel heppnaður viðburður í gær með skólunum í Grafarholti á fyrsta Stóra FRÍdeginum, mikil gleði, mikil stemming, mikil keppni og mikið gaman. Virkilega skemmtilegur viðburður til að kynna okkar frábæru íþrótt fyrir krökkunum og kennurum þeirra. Hver veit nema næsta frjálsíþróttastjarna hafi verið þarna í hópnum.

Við þökkum nemendum og kennurum Dalskóla, Ingunnarskóla og Sæmundarskóla kærlega fyrir þátttökuna í gær.

Frjálsíþróttasamband Íslands er virkilega ánægt hvernig tiltókst í þessari frumraun í að halda Stóra FRÍdaginn og er viðburðurinn sannarlega kominn til að vera. Ef að skólar eða íþróttafélög hafa áhuga á að halda Stóra FRÍdaginn fyrir krakka í 5.-7. bekk, eða viljið fá frekari upplýsingar um viðburðinn, þá má endilega hafa samband við FRÍ (fri@fri.is).

Með styrk frá Lýðheilsusjóði Embættis landlæknis varð Stóri FRÍ-dagurinn að veruleika. Við erum afar þakklát fyrir þann stuðning sem gerði okkur kleift að skapa gleðilegan og uppbyggilegan viðburð fyrir 5. bekkinga í Grafarholti.

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Stóri FRÍdagurinn haldinn í fyrsta sinn

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit