Meistaramót Íslands fer fram um helgina á Selfossi – okkar allra fremsta frjálsíþróttafólk mætir til leiks

Penni

5

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Meistaramót Íslands fer fram um helgina á Selfossi – okkar allra fremsta frjálsíþróttafólk mætir til leiks

Þá er komið að síðasta innanlandsstórmótinu þetta árið og einum af hápunktum keppnistímabilsins, en Meistaramót Íslands fer fram á Selfossi núna um helgina, 22.-24. ágúst. Um er að ræða þriggja daga frjálsíþróttaveislu þar sem flest af okkar fremsta frjálsíþróttafólki mætir til leiks.

Meðal keppenda í ár er neðangreint íþróttafólk.

400 m hlaup kvenna

Meðal keppenda í 400 m hlaupi kvenna er Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir en hún hefur átt alveg frábært keppnissumar í greininni. Hún hljóp í fyrsta sinn undir 55 sekúndum snemma í sumar og er búin að vera með stöðugar bætingar síðan þá, og hennar besti tími, 54,05 sek, er frá því 9. ágúst sl. Það er virkilega gaman að sjá í hversu góðu formi Guðbjörg er og verður spennandi að fylgjast með henni um helgina. En auk 400 m hlaupsins þá er Guðbjörg skráð til keppni í 200 m hlaupinu.

Íslandsmetið á Guðrún Arnardóttir og er það 52,93 sek frá 1997.þ

Mótsmetið á Arna Stefanía Guðmundsdóttir og er það 53,91 sek frá 2016.

400 m hlaup kvenna er fyrsta grein mótsins og er á föstudaginn klukkan 18:00.

1500 hlaup karla

Baldvin Þór Magnússon, Íslandsmethafinn í greininni, er meðal keppenda í 1500 m hlaupi karla. Baldvin var ansi duglegur að bæta Íslandsmet í upphafi árs en hann bætti bæði Íslandsmetið í 1500 m hlaupi innanhúss og 3000 m hlaupi innanhúss. Það verður gaman að sjá hann á brautinni á Selfossi um helgina. En þess má til gamans geta að Baldvin er einnig skráður til keppni í 10 km hlaupinu í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka um helgina, verður nóg að gera hjá þessum frábæra hlaupara.

Íslandsmetið á Baldvin Þór Magnússon og er það 3:39,90 mín frá 2024.

Mótsmetið á Hlynur Andrésson og er það 3:53,28 mín og er frá 2023.

1500 m hlaup karla er á föstudaginn klukkan 18:40.

Sleggjukast karla

Hilmar Örn Jónsson, Íslandsmethafinn í greininni, mætir í kasthringinn um helgina þegar sleggjukastkeppni karla fer fram. Hilmar er búinn að eiga hið fínasta keppnissumar þar sem hann hefur verið að kasta mjög stöðugt yfir 70 metrana og lengst í ár hefur hann kastað 74,59 m.

Íslandsmetið á Hilmar Örn Jónsson og er það 77,10 m frá því 2020.

Mótmetið á Hilmar Örn Jónsson og er það 75,20 m frá því 2022.

Sleggjukast karla er á föstudaginn klukkan 19:15

Sleggjukast kvenna

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir er meðal keppenda í sleggjukasti kvenna en hún á annað lengsta kast íslenskrar konu í sleggjukasti. Hún hefur lengst kastað 69,99 m en hún gerði það í gær, 20. ágúst. Verður gaman að sjá hvort hún rjúfi 70 m múrinn um helgina.

Íslandsmetið á Elísabet Rúnarsdóttir og er það 70,47 m frá 2024.

Mótsmetið á Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir og er það 65,21 m frá 2023.

Sleggjukast kvenna er á föstudaginn klukkan 19:15.

100 m hlaup kvenna

100 m hlaup kvenna gæti orðið spennandi en þar eru meðal keppenda Eir Chang Hlésdóttir og Christina Alba Marcus Hafliðadóttir en þær eru báðar á topp 10 listanum yfir hröðustu íslensku konurnar í 100 m hlaupi frá upphafi. Eir hefur hlaupið hraðast á 11,69 sek og Christina Alba á 11,89 sek.

Íslandsmetið á Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og er það 11,56 sek frá 2019.

Mótmetið á Sunna Gestsdóttir og er það 11,63 sek frá 2004.

Undanúrslitin í 100 m hlaupi kvenna eru á laugardaginn klukkan 11:00 og úrslitin eru á laugardaginn klukkan 13:10.

Langstökk kvenna

Það stefnir í skemmtilega keppni í langstökki kvenna en þar eru meðal keppenda þrjár sex metra konur sem allar eru á topp tíu listanum í langstökki kvenna frá upphafi. Þetta eru þær Birna Kristin Kristjánsdóttir sem lengst hefur stokkið 6,46 m, Irma Gunnarsdóttir sem á best 6,45 m og Ísold Sævarsdóttir sem hefur stokkið lengst 6,01 m.

Íslandsmetið á Hafdís Sigurðardóttir og er það 6,62 m frá 2016.

Mótsmetið á Hafdís Sigurðardóttir og er það 6,39 m frá 2015.

Langstökk kvenna er á laugardaginn klukkan 12:00.

Kringlukast kvenna

Hera Christensen er meðal keppenda í kringlukasti kvenna en hún er búin að vera á mjög góðri siglingu í greininni í sumar og nálgast Íslandsmet Thelmu Lindar Kristjánsdóttur óðfluga. Hera keppti á EM U23 í sumar og stóð sig mjög vel, komst í úrslit og endaði í 5. sæti sem er frábær árangur. Hún hefur lengst kastað 53,80 m.

Íslandsmetið á Thelma Lind Kristjánsdóttir og er það 54,69 m frá 2018.

Mótsmetið á Thelma Lind Kristjánsdóttir og er það 49,85 m frá 2018.

Kringlukast kvenna er á laugardaginn klukkan 12:55.

Spjótkast karla

Sindri Hrafn Guðmundsson keppir í spjótkasti en hann hefur átt fínt tímabil þar sem hann er búinn að kasta lengst í ár 81,39 m en hans lengsta kast á ferlinum er 82,55 m sem er þriðja lengsta kast íslensks karlmanns frá upphafi í spjótkasti.

Íslandsmetið á Einar Vilhjálmsson og er það 86,80 m frá 1992.

Mótsmetið á Einar Vilhjálmsson og er það 84,66 m frá 1988.

Spjótkast karla er á laugardaginn klukkan 13:05.

Langstökk karla

Daníel Ingi Egilsson, Íslandsmethafinn í greininni, mætir til keppni í langstökki um helgina. Daníel er búinn að stökkva 7,79 m lengst í ár.

Íslandsmetið á Daníel Ingi Egilsson og er það 8,21 m frá 2024.

Mótsmetið á Jón Arnar Magnússon og er það 7,96 m frá 1997.

Langstökk karla er á laugardaginn klukkan 13:30.

Spjótkast kvenna

Arndís Diljá Óskarsdóttir er meðal keppenda í spjótkasti kvenna en hún er búin að eiga frábært sumar þar sem hún hefur verið að kasta mjög stöðugt um og yfir 50 m og lengst hefur hún kastað 54,99 m. Hún var meðal keppenda á EM U23 og komst þar í úrslit í greininni. Hin unga og efnilega Bryndís Embla Einarsdóttir, sem keppti fyrr í sumar á EYOF, er einnig meðal keppenda en hún á best 44,75 m frá því síðasta sumar.

Íslandsmetið á Ásdís Hjálmsdóttir og er það 63,43 m frá 2017.

Mótsmetið á Ásdís Hjálmsdóttir og er það 60,54 m frá 2012.

Spjótkast kvenna er á laugardaginn klukkan 14:00.

200 m hlaup kvenna

Það má búast við hörkuskemmtilegu 200 m hlaupi kvennamegin en þar eru skráðar til leiks tvær hröðustu konur Íslandssögunnar í greininni og skilur aðeins eitt sekúndubrot af þeirra besta tíma. Þetta eru þær Eir Chang Hlésdóttir og Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir. Eir hefur átt alveg frábært tímabil í greininni og bætti m.a. Íslandsmetið fyrr í sumar og komst í úrslit og endaði í 7. sæti á EM U20 fyrr í mánuðinum. Íslandsmet hennar er 23,44 sek. Guðbjörg hefur verið að einbeita sér að 400 m hlaupi undanfarið með frábærum árangri og hefur ekki keppt í 200 m hlaupi í sumar en hún á best 23,45 sek frá því 2019.

Íslandsmetið á Eir Chang Hlésdóttir og er það 23,44 frá 2025.

Mótsmetið á Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og er það 23,89 sek frá 2018.

Undanúrslitin í 200 m hlaup kvenna er á sunnudaginn klukkan 11:10 og úrslitin eru á sunnudaginn klukkan 13:40.

Þrístökk kvenna

Irma Gunnarsdóttir, Íslandsmethafi í greininni, keppir í þrístökki um helgina en hún hefur átt flott tímabil í greininni þar sem hápunkturinn var þegar hún bætti sitt eigið Íslandsmet á Evrópubikar í lok júní þar sem hún stökk 13,72 m. Anna Metta Óskarsdóttir, hin unga og efnilega frjálsíþróttakona, er einnig skráð til leiks í þrístökkinu en hún er aðeins 15 ára gömul og hefur lengst stokkið 11,85 m sem er 15. besti árangur íslenskrar konu í þrístökki frá upphafi.

Íslandsmetið á Irma Gunnarsdóttir og er það 13,72 m frá 2025.

Mótsmetið á Irma Gunnarsdóttir og er það 13,07 m frá 2023.

Þrístökk kvenna er á sunnudaginn klukkan 12:00.

Kúluvarp kvenna

Erna Sóley Gunnarsdóttir, Íslandsmethafi í greininni, mætir í kasthringinn um helgina þegar kúluvarp kvenna fer fram. Íslandsmet hennar, 17,91 m, er einmitt frá Meistaramóti Íslands í fyrra. Þannig að það verður gaman að sjá hvað hún gerir á MÍ í ár.

Íslandsmetið á Erna Sóley Gunnarsdóttir og er það 17,91 m frá því 2024.

Mótsmetið á Erna Sóley Gunnarsdóttir og er það 17,91 m frá því 2024.

Kúluvarp kvenna er á sunnudaginn klukkan 13:00.

Kringlukast karla

Guðni Valur Guðnason, Íslandsmethafinn, er meðal keppenda í kringlukasti karla. Íslandsmet hans er 69,35 m en í ár hefur hann kastað lengst 63,33 m.

Íslandsmetið á Guðni Valur Guðnason og er það 69,35 m frá 2020.

Mótsmetið á Guðni Valur Guðnason og er það 64,43 m frá 2023.

Kringlukast karla er á sunnudaginn klukkan 13:20.

Það stefnir í virkilega skemmtilegt og flott mót á Selfossvelli um helgina og hvetjum við öll til að mæta á völlinn og hvetja þetta frábæra frjálsíþróttafólk áfram. Meistaramót Íslands er síðasti glugginn hjá okkar frjálsíþróttafólki til að ná árangri sem skilar því HM sæti og liggur fyrir í næstu viku hver það eru sem næla sér í miða til Tókýó.

Tímaseðil og keppendalista má sjá hér.

Úrslit munu birtast hér.

Hægt er að fylgjast með streymi hér.

Penni

5

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Meistaramót Íslands fer fram um helgina á Selfossi – okkar allra fremsta frjálsíþróttafólk mætir til leiks

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit