Keppni hjá íslenska frjálsíþróttafólkinu á EYOF hélt áfram í dag – Bryndís Embla í 14. sæti í spjótkasti og Hjálmar með flottan fyrri dag í tugþrautinni

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Keppni hjá íslenska frjálsíþróttafólkinu á EYOF hélt áfram í dag – Bryndís Embla í 14. sæti í spjótkasti og Hjálmar með flottan fyrri dag í tugþrautinni

Íslenska frjálsíþróttafólkið mætti aftur á keppnisvöllinn í dag þegar Hjálmar Vilhelm Rúnarsson hóf keppni í tugþraut pilta og Bryndís Embla Einarsdóttir keppti í spjótkasti stúlkna.

Tugþrautin hófst snemma í morgun á 100 m hlaupi og þar hljóp Hjálmar á 11,51 sek og hlaut fyrir það 750 stig. Næsta grein var langstökk og þar stökk Hjálmar 5,94 m og hlaut 574. Hjálmar gerði sér lítið fyrir og var með lengsta kastið í kúluvarpskeppninni þegar hann kastaði 15,83 m, og fékk þar 841 stig, og var aðeins 6 cm frá sínum besta árangri. Í hástökkinu stökk hann 1,97 m, sem er bæting um þrjá cm og hann nálgast tvo metrana óðum, og gefur sá árangur 776 stig. Virkilega vel gert í hástökkinu hjá Hjálmari. Lokagrein dagsins í tugþrautinni var svo 400 m hlaupið og þar var Hjálmar með aðra persónulega bætingu þegar hann kom í mark á 54,05 sek og hlaut 638 stig, frábær endir á mjög góðum keppnisdegi. Eftir fyrri daginn er hann því með 3579 stig en þess má til gamans geta að á Norðurlandameistaramótinu í fjölþraut sem fram fór í Gautaborg um miðjan júní sl. þá var Hjálmar með 3526 stig eftir fyrri daginn en hann setti aldursflokkamet í flokki U18 pilta á því móti. Verður virkilega gaman að fylgjast með honum á morgun.

Hjálmar í kúlvarpskeppni tugþrautarinnar fyrr í dag

Spjótkast stúlkna fór fram núna seinni partinn og þar kastaði Bryndís Embla 39,80 m og hafnaði í 14. sæti. Flott frumraun hjá þessum unga og mjög svo efnilega spjótkastara á alþjóðlega keppnissviðinu.

Bryndís Embla að gera sig klára í spjótkastkeppninni fyrr í dag

Lokakeppnisdagur á EYOF er á morgun, laugardaginn 26. júlí, og þá heldur m.a. tugþrautarkeppnin áfram; þá keppir Hjálmar m.a. í kringlukasti og spjótkasti sem eru tvær af hans sterkustu greinum. Hann rauf 50 m múrinn í kringlukastinu fyrr í sumar þegar hann kastaði 50,63 m og hann er alveg við 60 m múrinn í spjótkastinu, en lengst hefur hann kastað 59,34 m. Það verður gaman að sjá hvað hann gerir á morgun. Fyrsta grein tugþrautarinnar á morgun er 110 m grindahlaup og hefst það klukkan 9:00.

Hér er hægt að fylgjast með lifandi streymi af keppninni.

Hér er hægt að skoða tímaseðil og fylgjast með úrslitum.

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Keppni hjá íslenska frjálsíþróttafólkinu á EYOF hélt áfram í dag – Bryndís Embla í 14. sæti í spjótkasti og Hjálmar með flottan fyrri dag í tugþrautinni

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit