Fyrri degi Evrópubikars (3. deild) lauk núna fyrir stuttu og þvílíkur dagur hjá okkar fólki, unun að fylgjast með þeim keppa í dag. Íslenska liðið leiðir stigakeppnina eftir daginn með 260 stig eftir 20 greinar af 37. Í öðru sæti eftir daginn er Lúxemborg með 219,5 stig og þriðju eru Moldóvar með 203 stig. En efstu þrjú liðin færast upp um deild og keppa því í 2. deild á Evrópubikar 2027.
Íslensku keppendurnir voru í fyrstu þremur sætunum í 15 greinum af þeim 20 sem keppt var í í dag, þrjár persónulegar bætingar litu dagsins ljós sem og eitt Íslandsmet. Varla hægt að biðja um flottari dag.
Hilmar Örn Jónsson setti tóninn strax í fyrstu grein dagsins, sleggjukasti karla, þar sem hann sigraði með kasti upp á 73,44 m, sem er annað besta kast hans síðastliðið ár. Virkilega vel gert hjá Hilmari.
Langstökkskeppni karla var virkilega spennandi, og Daníel Ingi Egilsson passaði að spennustigið hjá áhorfendum héldist hátt þar sem hann gerði fyrstu tvö stökkin sín ógild, en til að fá stig þá þarf að vera með gilt stökk. En svo átti hann frábært stökk í þriðju umferð þegar hann stökk 7,79 m og tók þar með forystuna, en Andreas Trajkovski frá Norður Makedóníu var í forystu með stökk upp á 7,74 m. Í fimmtu umferð stökk Trajkovski 7,83 og Daníel Ingi 7,78. Þannig að annað sætið var niðurstaðan í langstökki karla, en virkilega flott stökk hjá Daníel Inga og hann að bæta sinn ársbesta árangur um 16 cm.
Ingibjörg Sigurðardóttir hljóp 400 m grindahlaupið á 62,85 sek og varð í 5. sæti.
Það voru einhver vandræði að starta 400 m grindahlaupi karla en hvor riðill fór ekki af stað fyrr en í fjórðu eða fimmtu tilraun, þannig að það hefur væntanlega verið komin einhver óþreyja í keppendur þegar þeir loksins fóru af stað. En okkar maður, Ívar Kristinn Jasonarson, lét það ekki á sig fá og sigraði hlaupið á 52,06 sek, sem er annar besti árangur hans sl. tvö ár.
100 m hlaup karla var mjög spennandi en aðeins 6 sekúndubrot skildu að þriða og sjötta sætið. Kristófer Þorgrímsson hljóp flott hlaup og endaði í 3. sæti á tímanum 10,82 sek.
Eir Chang Hlésdóttir hljóp frábært 100 m hlaup og kom í mark á tímanum 11,69 sek sem er virkilega góð persónuleg bæting og í fyrsta skipti undir 12 sekúndur hjá henni, og endaði hún í þriðja sæti. Hrikalega vel gert hjá Eir, sem er aðeins 17 ára gömul, en þetta er fjórði besti tími íslenskrar konu í 100 m hlaupi frá upphafi.
Í 800 m hlaupi kvenna hafnaði Aníta Hinriksdóttir í öðru sæti, eftir ansi taktískt hlaup þar sem greinilegt að verið var að hlaupa upp á stigin en ekki endilega tímann, en Aníta hljóp á 2:10,52 mín.
Karen Sif Ársælsdóttir sigraði stangarstökk kvenna, en hún stökk 3,35 m. Eftir að hún fór yfir þá hæð var hún ein eftir í keppninni og hækkaði rána í 3,85 m til að reyna við persónulegt met en hún fór ekki yfir þá hæð að þessu sinni. En sigur í höfn sem er það sem skiptir máli í Evrópubikar.
Hera Christensen átti frábært mót í dag og endaði í öðru sæti í kringlukasti kvenna á góðu persónulegi meti, en hún kastaði lengst 53,80 m. En það er bæting um rúman meter, en hennar besti árangur var 52,67 m. Vel gert Hera!
Sigursteinn Ásgeirsson varð sjöundi í kúluvarpi karla með kast upp á 15,65 m.
Í 1500 m hlaupi karla endaði Hlynur Andrésson í 6. sæti á tímanum 3:55,87 mín.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir hljóp flott 400 m hlaup og endaði þar í 3. sæti á 55:00 sek., en það er hennar annar besti tími utanhúss í greininni og aðeins einu sekúndubroti frá hennar besta árangri utanhúss sem er 54,99 sek frá því í lok maí sl.
Í 400 m hlaupi karla varð Sæmundur Ólafsson í 8. sæti á tímanum 49.16 sek.
Birna Kristín Kristjánsdóttir lenti í 2. sæti í langstökki kvenna með stökk upp á 6,31 m.
Í hástökki karla stökk Þorleifur Einar Leifsson 1,90 m og endaði í 6. sæti.
Arndís Diljá Óskarsdóttir gerði sér lítið fyrir og sigraði spjótkast kvenna með kasti upp á 51,60 m. Hún kastaði það í sínu fyrsta kasti og næstu fjögur köstin hennar voru ógild og svo náði hún gildu kasti í sjötta og síðasta kastinu. En það þarf bara eitt gott kast og það gerði Arndís Diljá í dag.
Baldvin Þór Magnússon hljóp örugglega í 5000 m hlaupi karla og endaði annar á tímanum 14:30,71 mín.
Hápunktur dagsins var 3000 m hindrunarhlaup kvenna þar sem Andrea Kolbeinsdóttir bætti eigið Íslandsmet þegar hún kom önnur í mark á 10:07,38 mín og bætti metið um rúmlega eina sekúndu, en eldra met hennar var 10:08,85 mín. Glæsilegt hjá henni Andreu, en þetta er annað Íslandsmetið sem hún setur á innan við viku, geri aðrir betur.
Boðhlaupssveitirnar toppuðu svo frábæran dag með því að sigra bæði 4×100 m boðhlaup kvenna og 4×100 m boðhlaup karla. Kvennasveitina skipuðu Júlía Kristín Jóhannesdóttir, María Helga Högnadóttir, Ísold Sævarsdóttir og Eir Chang Hlésdóttir og komu þær í mark á 46.03 sek. Karlasveitina skipuðu Sveinbjörn Óli Svavarsson, Arnar Logi Brynjarsson, Þorleifur Einar Leifsson og Kristófer Þorgrímsson og komu þeir í mark á 40,85 sek.
Nú er bara að senda góða strauma og orku út til Maribor fyrir seinni daginn sem verður á morgun, miðvikudaginn 25. júní. Það kemur frétt með dagskrá morgundagsins inn á vefinn seinna í kvöld.