Fyrri degi NM U20 lauk núna fyrir stuttu og stóð íslenska liðið sitt með mikilli prýði.
Eir Chang Hlésdóttir hljóp 100 m hlaupið á 11,79 sek og endaði í þriðja sæti. Þetta er hennar annar besti tími í 100 m hlaupi, virkilega vel gert hjá Eir.
Hafdís Anna Svansdóttir var með persónulega bætingu í 400 m hlaupinu þegar hún kom í mark á 59,47 sek og endaði hún í 8. sæti. Flottur árangur hjá Hafdísi Önnu.
Helga Lilja Maack keppti í 1500 m hlaupi og bætti sig um tæpar fjórar sekúndur utanhúss og endaði í 8. sæti. Ekkert smá flott bæting hjá Helgu Lilju.
Ísold Sævarsdóttir kom í mark í 100 m grindahlaupi á 14,41 sek, sem er hennar annar besti tími í greininni, og endaði í þriðja sæti. Vel gert hjá Ísold.
Marsibil Þóra Í Hafsteinsdóttir lenti í 5. sæti í hástökki en hún stökk 1,68 m.
Ísold Sævarsdóttir átti frábært langstökk og endaði þar í 2. sæti með stökk upp 5,98 m, sem er bæting utanhúss um 3 sentímetra. Ísold var með þrjú gild stökk, 5,94 m, 5,96 m og 5,98 m og greinilegt að hún er mjög örugg í kringum 6 metrana.
Hanna Dóra Höskuldsdóttir var með enga smá bætingu í kringlukastinu, en hún kastaði 38,22 m og bætti sig þar með um heila þrjá metra. Virkilega vel gert hjá Hönnu Dóru. Þetta kast skilaði henni 8. sætinu.
Elena Soffía Ómarsdóttir átti líka frábært spjótkast þar sem hún bætti sig um rúmlega 2,5 m þegar hún kastaði 44,18 m og hafnaði hún í 6. sæti. Vel gert!
Arnar Logi Brynjarsson keppti í 100 m hlaupi og kom hann þar sjöundi í mark á 10,99 sek.
Kjartan Óli Bjarnason gerði sér lítið fyrir og rauf 50 sekúndna múrinn í 400 m hlaupi þegar hann kom áttundi í mark á 49,66 sek. Frábært hjá Kjartani Óla.
Hilmar Ingi Bernharðsson kom níundi í mark í 1500 m hlaupinu á 4:25,06 mín.
Ívar Ylur Birkisson hljóp 110 m grindahlaupið á 14,73 sek, en það er perósónulegt met þar sem hann hefur ekki áður hlaupið löglegt hlaup á þessa hæð (99,1 cm). Virkilega vel gert hjá Ívari Yl.
Grétar Björn Unnsteinsson stökk 4,17 m í stangarstökki.
Tobías Þórarinn Matharel bætti sig vel í langstökki þar sem hann stökk lengst 6,81 m, en fyrir var hans besti árangur 6,66 m og þetta stökk hans skilaði honum 6. sæti. Flottur árangur hjá Tobíasi Þórarni.
Þorsteinn Pétursson hafnaði í 9. sæti í kúluvarpi en hann kastaði lengst 13,65 m.
Heildarúrslit dagsins má sjá hér.
Flottur fyrri dagur hjá okkar fólki, mikið af persónulegum bætinum og þrenn verðlaun í hús. Hlökkum til að fylgjast með þeim á morgun og sendum góðar kveðjur til Uppsala.
Myndir frá deginum koma inn á Flickr síðu FRÍ.
Heimasíðu mótsins má sjá hér.
Úrslit munu birtast hér.