Við kíktum á æfingu hjá fullorðinsfrjálsum FH í síðustu viku og þar var heldur betur fjör! Það var einstaklega gaman að sjá hvað frjálsíþróttir eru frábært sport fyrir alla aldurshópa – unga sem aldna.
Þarna voru mættir algjörir nýgræðingar í íþróttinni ásamt fyrrum landsliðsfólki, öll á sama stað, að æfa saman og hafa gaman. Andrúmsloftið var afslappað, hlýtt og fullt af orku – hrein frjálsíþróttagleði í Kaplakrika!
Þetta er annar veturinn sem FH er með fullorðinsfrjálsar en upphaf þeirra má rekja til áhugasamra foreldra sem áttu börn í barna- og unglingahópunum hjá FH sem langaði sjálf að geta stundað þetta skemmtilega sport okkar.
Melkorka Rán Hafliðadóttir, annar þjálfari hópsins, tók þessari hugmynd vel og sagði að ef foreldrarnir myndu finna sex manna hóp þá væri hún til í að taka að sér þjálfunina. Það tókst svona heldur betur vel og á fyrstu æfinguna haustið 2024 mættu tæplega 20 iðkendur og frá fyrstu stundum hefur fjölmennur og fjölbreyttur hópur mætt á frjálsíþróttaæfingu í Kaplakrika tvisvar í viku.
Ásamt Melkorku þjálfar Þórunn Erlingsdóttir (Tóta) hópinn og það er augljóst að þær eru ánægðar með þennan flotta hóp og segja þær báðar að aðalmálið sé að hafa gaman að þessu en einnig að keppnisskapið í þessu fólki sé mikið og þau líti á MÍ í masters sem sýna uppskeruhátíð enda stóðu FH-ingar sig með eindæmum vel á síðasta MÍ í masters innanhúss.
Núna er nýtt tímabil farið af stað hjá hópnum og þau stefna ótrauð á að fjölmenna á MÍ í masters núna í vetur.
Spurðar út í hvernig æfingum er háttað þá eru þær bara eins fjölbreyttar eins og frjálsíþróttirnar eru. Á þessum aldri er samt mjög mikilvægt að taka góða upphitun til að undirbúa sig undir átökin og við verðum að segja að iðkendur voru ofsalega samviskusamir í upphituninni, í liðkunaræfingum, jafnvægisæfingum og auðvitað allskyns drillur. Svo eru nokkrar tæknigreinar í boði á hverri æfingu og þar er engin grein undanskilin, þau fara m.a.s. í stangarstökk. Á æfingunni sem við kíktum á fóru iðkendur í spjótkast og langstökk og sýndu þvílíka takta. Svo er alltaf stór hópur sem velur að taka spretti, mislanga og mismarga, þannig að hver og einn finnur eitthvað við sitt hæfi eða sitt dagsform.
Það var virkilega gaman að kíkja á æfingu hjá FH-ingum og fá það beint í æð að frjálsíþróttirnar eru sannarlega fyrir öll, óháð fyrri íþróttaiðkun og aldri. Eins og Íris verkefnastjóri FRÍ sagði í lok æfingar: „Frjálsar eru fyrir alla…“, en hún var þarna að mæta á sína fyrstu frjálsíþróttaæfingu og stóð sig með mikilli prýði.
Gaman er að segja frá því að akkúrat núna er Evrópumeistaramótið í mastersflokkum í fullum gangi í Madeira í Portúgal og þar eigum við Íslendingar 10 keppendur. Hver veit nema næsti keppandi á mastersstórmóti hafi verið á æfingu í fullorðinsfrjálsum hjá FH á miðvikudaginn í síðustu viku.
Fyrir áhugasama þá er um að gera að kynna sér fullorðinsfrjálsar. Við erum aldrei of gömul fyrir frjálsíþróttirnar.
Mælum með að þið horfið á þetta stórskemmtilega myndband af Írisi að prófa frjálsíþróttir í fyrsta sinn.