Flottur dagur hjá okkar konum á EM U20 í Tampere í Finnlandi!
Ísold Sævarsdóttir hóf daginn snemma þegar sjöþrautin hófst með 100 m grindahlaupinu, þar sem hún kom í mark á tímanum 14,34 sek, sem er ansi nálægt hennar besta tíma sem er 14,31 sek frá því um miðjan júlí, og í grindahlaupinu hlaut hún 931 stig. Í hástökkinu stökk hún 1,56 og hlaut 689 stig. Ísold átti mjög gott kúluvarp og bætti sig um 79 sentímetra þegar hún kastaði 12,27 m, virkilega vel gert, og hlaut hún þar 679 stig. Í 200 m hlaupinu kom hún í mark á 25,33 sek og hlaut 857 stig. Eftir fyrri dag þrautarinnar er Ísold því með 3156 stig.
Sjöþrautin heldur áfram á morgun og hefst fyrsta greinin, langstökk, klukkan 10:00 að staðartíma.
Eir Chang Hlésdóttir átti frábæran dag á hlaupabrautinni í dag þegar keppni í 200 m hlaupinu hélt áfram. Eir var í fyrsta riðli undanúrslitanna og kom þriðja í mark í þeim riðli á 23,51 sek, sem er hennar annar besti tími í greininni frá upphafi og þriðji besti tími íslenskrar konu í 200 m hlaupi frá upphafi. Þannig að við þurftum að bíða spennt eftir úrslitum hinna riðlanna til að sjá hvort hún kæmist í úrslitin og eftir seinni tvo riðlana var ljóst að Eir komst áfram í úrslitahlaupið og ekki nóg með það heldur var hún með fjórða besta tímann inn í úrslitin. Í úrslitahlaupinu kom hún sjöunda í mark á 24,07 sek.
Frábær árangur hjá Eir á hennar fyrsta EM U20 og hún var með skýrt markmið, að komast í úrslit, og hún sannarlega náði því með stæl.
Við óskum Eir innilega til hamingju með árangurinn sinn og við erum virkilega stolt af henni.
Heildarúrslitin má sjá hér.