Okkar unga og frábæra frjálsíþróttafólk heldur áfram að leggja land undir fót og núna er komið að Evrópumeistaramóti U20 en það fer fram í Tampere í Finnlandi dagana 7.-10. ágúst. Á EM U20 mætir til leiks besta frjálsíþróttafólk Evrópu yngra en 20 ára og að sjálfsögðu á Ísland sína flottu fulltrúa í þeim hópi.
Í ár mæta tveir íslenskir keppendur til leiks, Eir Chang Hlésdóttir og Ísold Sævarsdóttir, og eru þær báðar með lágmörk inn á mótið. Þess má til gamans geta að þær náðu lágmarki í fleiri greinum en þær taka þátt í á mótinu. Þvílíkar íþróttakonur.
Þetta er í fyrsta sinn sem Eir og Ísold keppa á EM U20 en þær eru báðar fæddar 2007 og eru því aðeins 18 ára gamlar. Þær eru samt sem áður svo sannarlega með mikla alþjóðlega keppnisreynslu og voru m.a. meðal þriggja íslenskra keppenda á EM U18 sem fram fór í Slóvakíu í fyrrasumar. Þar keppti Eir í 400 m hlaupi og komst hún þar í undanúrslit og hljóp þar á 56,75 sek og hafnaði í 17. sæti. Ísold keppti þar í sjöþraut og átti frábæra þraut þar sem hún bætti aldursflokkametið í flokki 16-17 ára þegar hún hlaut 5643 stig og hafnaði í 5. sæti.
Athugið að allar tímasetningar hér að neðan eru á staðartíma, en Tampere er þremur tímum á undan Íslandi.
Eir Chang Hlésdóttir keppir í 100 m hlaupi og 200 m hlaupi en hún náði lágmarki í 100 m hlaupinu núna í lok júní þegar hún hljóp á 11,69 sek og lágmarki í 200 m hlaupinu í ágúst í fyrra þegar hún hljóp á 24,30 sek. Auk þess náði Eir einnig lágmarki í 400 m hlaupi í maí 2024 þegar hún hljóp á 55,01 sek en hún mun ekki keppa í þeirri grein á þessu móti.
Eir hefur verið á svakalegri siglingu undanfarið og verið virkilega gaman að fylgjast með þessari ungu íþróttakonu sem er greinilega í hörkuformi. Frá því að hún náði lágmarki í 200 m hlaupinu síðasta sumar, þegar hún hljóp á 24,30, er hún búin að stórbæta tímann sinn í greininni, en hún er ríkjandi Íslandsmethafi í 200 m hlaupi bæði innanhúss og utanhúss. Í vetur bætti hún 21 árs gamalt Íslandsmet Silju Úlfarsdóttur þegar hún hljóp á 23,69 sek og fyrr í sumar bætti hún sex ára gamalt Íslandsmet Guðbjargar Jónu Bjarnadóttur þegar hún kom í mark á 23,44 sek. Þessi frábæri árangur Eirar er sjöundi besti árangur allra skráðra keppenda og á hún því góða möguleika á að komast í úrslit.
Undanriðlar 200 m hlaupsins eru föstudaginn 8. ágúst klukkan 12:00. Undanúrslitin eru laugardaginn 9. ágúst klukkan 14:30 og úrslitin seinna sama dag klukkan 17:35.
Eir hefur einnig verið að bæta sig mikið í 100 m hlaupi að undanförnu og í lok júní sl. náði hún besta tíma sínum í greininni þegar hún hljóp á 11,69 sek og er það fjórði besti tími íslenskrar konu í 100 m hlaupi frá upphafi.
Undanriðlar 100 m hlaupsins eru fimmtudaginn 7. ágúst klukkan 11:50 og undanúrslitin seinna sama dag klukkan 20:20. Úrslitahlaupið fer svo fram föstudaginn 8. ágúst klukkan 20:40.
Ísold Sævarsdóttir keppir í sjöþraut en því lágmarki náði hún þegar hún lenti í öðru sæti á NM í fjölþrautum í Gautaborg um miðjan júní og hlaut 5490 stig. Þessi magnaða íþróttakona náði einnig lágmarki í 400 m grindahlaupi á Bikarkeppni FRÍ í byrjun júlí þegar hún hljóp á 59,76 sek en hún mun ekki keppa í þeirri grein.
Besti árangur Ísoldar í sjöþraut með U20 áhöld er frá því á NM í Gautaborg, 5490 stig. Í þeirri þraut var hún með tvær persónulegar bætingar, í 200 m hlaupi og spjótkasti. Eins hefur verið að flottri leið í langstökki en hún bætti utanhússárangur sinn í greininni á NM U20 sem fram fór í lok júlí þegar hún stökk 5,98 m og er bara tímaspursmál hvenær hún rýfur 6 metra múrinn. Ísold er greinilega í flottu formi og verður gaman að fylgjast með henni um komandi helgi.
Sjöþrautin hefst á 100 m grindahlaupi laugardaginn 9. ágúst klukkan 10:15 og síðasta greinin er svo 800 m hlaup sem fer fram sunnudaginn 10. ágúst klukkan 19:40.
🔗 Heimasíða mótsins – allar upplýsingar um mótið, keppendur og dagskrá
📅 Tímaseðill – nákvæmar tímasetningar á öllum greinum
📊 Úrslit – lifandi uppfærslur á árangri keppenda
▶️ Beint streymi – fylgstu með mótinu í beinni útsendingu (við birtum hlekk á samfélagsmiðlum á keppnisdögum)
Við óskum Eir og Ísold góðs gengis á EM U20 og hvetjum öll til að fylgjast með þessum frábæru keppendum sem eiga svo sannarlega erindi á meðal þeirra bestu í Evrópu.