Eir Chang Hlésdóttir hefur hlotið styrk frá Lars Weina Foundation en sjóðurinn styrkir ungt og efnilegt íþróttafólk á Norðurlöndum. Danska Ólympíunefndin (DIF) hefur umsjón með styrkveitingunni fyrir hönd Lars Weina Foundation og er þetta í fyrsta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Styrkurinn sem Eir hlýtur er upp á 16 þúsund evrur eða sem nemur tæplega 2,4 milljónum íslenskra króna. Er styrkurinn meðal annars hugsaður til að koma til móts við kostnað hennar vegna æfinga og keppni og mun Frjálsíþróttasamband Íslands koma að umsýslu og aðstoða hana í hennar framþróun.
Sjá nánari upplýsingar um styrkinn og styrkveitinguna á vef ÍSÍ.

Eir er 17 ára og byrjaði að æfa frjálsíþróttir árið 2021. Í fyrra keppti hún á Norðurlandamóti U20, Evrópumeistaramóti U18 og heimsmeistaramóti U20. Hún vann gullverðlaun í 200 metra hlaupi og bronsverðlaun í 400 m hlaupi á Norðurlandamóti U20 og keppti í undanúrslitum í 400 m hlaupi á Evrópumeistaramóti U18 ára.
Veturinn 2024-2025 sýndi hún miklar framfarir og bætti meðal annars 21 árs gamalt Íslandsmet í 200 metra hlaupi kvenna innanhúss. Eir hefur einnig átt frábært sumar í ár og bætti Íslandsmetið í 200 m hlaupi utanhúss og náði frábærum árangri á Evrópumeistaramóti U20 ára þegar hún hafnaði í 7. sæti í 200 metra hlaupi.
Við óskum Eir til hamingju með þennan styrk sem mun án efa hjálpa henni á þessari frábæru vegferð sem hún er á í spretthlaupunum.