Um helgina lauk þjálfaranámskeiði 1 hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands sem er ætlað þeim sem starfa með yngstu iðkendunum, 12 ára og yngri. Námskeiðið er hluti af almennri þjálfaramenntun ÍSÍ, þar sem ÍSÍ sér um bóklega grunninn en sérsamböndin, líkt og FRÍ, sjá um sérgreinahlutann sjálfan og verklega hlutann.

Bóklegi hlutinn hófst um miðjan september og fengu þátttakendur þar innsýn í helstu áherslur í þjálfun barna og unglinga, grunnatriði þjálfarastarfsins og uppbyggingu frjálsíþrótta á yngri stigum. Um liðna helgi fór verklegi hlutinn svo fram í ÍR-heimilinu í Breiðholti. Þar var mikið fjör og mikil gleði þar sem farið var í alls konar æfingar sem henta í þjálfun yngri barna, hvort sem það eru leikir eða grunnatriðin í flestum greinum frjálsíþróttanna.

Alls tóku tíu þátttakendur þátt í námskeiðinu, frá félögum á höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Norðurlandi. Gunnhildur Hinriksdóttir, formaður fræðslunefndar FRÍ, sá um skipulag og utanumhald námskeiðsins en Melkorka Rán Hafliðadóttir, yfirþjálfari yngri flokka hjá FH, leiddi verklegu helgina.

Þátttakendur lýstu mikilli ánægju með námskeiðið og ljóst er að frjálsíþróttahreyfingin hefur fengið til sín hóp af flottum, vel undirbúnum og öflugum þjálfurum sem munu efla yngri flokka íþróttarinnar á komandi misserum og leggja sitt af mörkum til góðrar uppbyggingar íþróttarinnar um land allt.