VIKAN: Tvöfalt HM, íþróttavika Evrópu, 25 ár frá bronsverðlaunum Völu Flosadóttur á ÓL

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

VIKAN: Tvöfalt HM, íþróttavika Evrópu, 25 ár frá bronsverðlaunum Völu Flosadóttur á ÓL

Ekki hefur verið birtur vikupistill undanfarnar vikur en það þýðir alls ekki að ekkert hafi verið um að vera í frjálsíþróttunum, eiginlega bara þvert á móti. Stiklum á stóru yfir atburði síðustu vikna.

Heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum í Tókýó í Japan

Heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum fór fram í Tókýó í Japan dagana 13.-21. september og í ár tóku þrír íslenskir frjálsíþróttakeppendur þátt.

Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir tók þátt í undankeppni sleggjukastsins og kastaði þar 64,94 m og endaði hún í 35. sæti.

Sindri Hrafn Guðmundsson keppti í undankeppni spjótkastsins og kastaði þar lengst 75,56 m og endaði í 35. sæti.

Erna Sóley Gunnarsdóttir keppti í undankeppni kúluvarpsins og kastaði lengst 16,87 m og endaði í 31. sæti.

Okkar fólk náði sér ekki alveg á strik og voru öll talsvert frá sínum besta árangri en engu að síður erum við virkilega stolt af þeim og fer þátttaka þeirra á HM beint í reynslubankana þeirra.

HM í utanvegahlaupum í Canfranc á Spáni

Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum (World Mountain & Trail Running Championships) fór fram dagana 25.–28. september í Canfranc-Pirineos á Spáni og í ár sendi Ísland eitt sitt öflugasta lið til þessa. Ísland átti keppendur í 45 km hlaupinu og í 82 km hlaupinu, og stóðu hlaupararnir sig alveg frábærlega. Hæst ber að nefna árangur kvennasveitarinnar í 82 km hlaupinu, en þær Elísa Kristinsdóttir, Andrea Kolbeinsdóttir og Guðfinna Kristín Björnsdóttir mynduðu sveitina sem endaði í 5. sæti sem er glæsilegur árangur.

Við erum alveg gríðarlega stolt af þessum árangri og þessum frábæru hlaupurum sem sýndu það svo sannarlega að Ísland á heima á þessum stóra velli sem HM er. Nánar má lesa um árangurinn á HM í utanvegahlaupum hér og hér.

FRÍ með á afmælishátíð íþróttaviku Evrópu

Íþróttavika Evrópu (European Week of Sport) er haldin 23. – 30. september ár hvert. Markmið íþróttavikunnar er að kynna íþróttir og hreyfingu fyrir almenningi í Evrópu og er hún ætluð öllum óháð aldri, bakgrunni eða líkamlegu ástandi. Í ár hélt ÍSÍ upp á 10 ára afmæli íþróttaviku Evrópu með skemmtilegum viðburði í Elliðárdalnum laugardaginn 27. september, og FRÍ fékk að vera með í þeirri gleði. Boðið var upp á nokkrar frjálsíþróttastöðvar í anda Krakkafrjálsra og vöktu þær mikla lukku hjá þátttakendum á öllum aldri. Vinsælast var stangarstökkið og skutlukastið og það er spurning hvort nýjasti frjálsíþróttaiðkandinn hafi verið í Elliðaárdalnum á laugardaginn.

Sjá nánar um viðburðinn á heimasíðu ÍSÍ.

25 ár frá bronsverðlaunum Völu Flosadóttur á Ólympíuleikunum

Í vikunni voru liðin 25 ár frá því að Vala Flosadóttir skrifaði nafn sitt í sögu íslenskra íþrótta þegar hún vann til bronsverðlauna í stangarstökki á Ólympíuleikunum í Sydney árið 2000, en á þeim Ólympíuleikum var í fyrsta skipti keppt í stangarstökki kvenna.

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

VIKAN: Tvöfalt HM, íþróttavika Evrópu, 25 ár frá bronsverðlaunum Völu Flosadóttur á ÓL

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit