Heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum fer fram í Tókýó í Japan dagana 13.-21. september og í ár taka þrír íslenskir frjálsíþróttakeppendur þátt. Heimsmeistaramótið er eitt stærsta frjálsíþróttamót heims og þangað mætir allt besta frjálsíþróttafólkið og því einstakt tækifæri fyrir íslenska keppendur að etja kappi við heimselítuna í sportinu.
Fyrst til að stíga út á völlinn í Tókýó er sleggjukastarinn Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir en hún tekur þátt í undankeppni sleggjukasts kvenna á sunnudaginn, 14. september. Fyrri kasthópurinn keppir klukkan 9:00 að staðartíma (klukkan 00:00 að íslenskum tíma) og seinni kasthópurinn klukkan 10:45 að staðartíma (01:45 að íslenskum tíma). Við uppfærum fréttina um leið og það liggur fyrir í hvorum hópnum Guðrún Karítas er.
Guðrún Karítas er ríkjandi Íslandsmeistari í sleggjukasti og er einnig Íslandsmethafi, en hún bætti Íslandsmetið á Meistaramóti Íslands í lok ágúst þegar hún kastaði 71,38 m. Þetta er fyrsta heimsmeistaramót Guðrúnar Karítasar en hún er í 29.-31. sæti heimslista Alþjóða frjálsíþróttasambandsins. Hún hefur áður keppt á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í Róm í fyrrasumar og á EM U23 sumarið 2023 í Finnlandi
Það eru 37 konur skráðar til leiks í sleggjukastkeppni mótsins og meðal keppenda er heimsmethafinn Anita Wlodarczyk frá Póllandi en heimsmet hennar er 82,98 m frá því 2016. Einnig er Brooke Andersen frá Bandaríkjunum meðal keppenda en hún á lengsta kast ársins, 79,29 m.
Það verður virkilega gaman að fylgjast með Guðrúnu Karítas á hennar fyrsta heimsmeistaramóti en hún hefur átt mjög góð mót núna síðsumars og nær því vonandi að toppa sig núna um helgina.
Við hittum Guðrúnu Karítas áður en hún flaug út til Japan til að taka stöðuna á henni svona rétt fyrir HM.
Til hamingju með HM sætið! Hvernig var tilfinningin þegar það var alveg ljóst að þú værir í 29.-31. sæti á heimslistanum í sleggjukasti og því á leiðinni á heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum núna í september?
„Bara mjög góð! Þetta var mikill léttir á MÍ (þegar hún bætti Íslandsmetið). Þetta var svona nánast komið en maður þurfti bara að bíða eftir staðfestingunni. Þetta voru mjög langir fimm dagar en ég er bara mjög glöð.“
Þú ert nýbúin að bæta Íslandsmetið í sleggjukasti – hvernig hjálpar sá árangur svona á síðustu metrunum í undirbúningi fyrir stóra sviðið sem HM er?
„Ég er mjög ánægð að vera að koma mér upp aftur, það er oft sem ég dala svolítið þegar líður á tímabilið. Af því að HM er svona seint þá er maður búinn að hafa góðan tíma til að byggja sig upp og vonandi bara get ég haldið því áfram.“
Þú ert greinilega að ná að toppa á réttum tíma á tímabilinu, var HM alltaf aðalmarkmið sumarsins og hefur tímabilið tekið mið af því?
„Já, ég myndi segja það. Þetta var ekkert alltaf auðvelt og þetta leit svona allt í lagi út þegar ég kom heim frá Bandaríkjunum. En tímabilið þar var auðvitað búið að vera langt og það tók mig smá tíma að koma mér aftur inn í þetta og koma mér í rútínu. Ég er mjög sátt að vera að hitta svona á þetta núna, góður tímapunktur að fá smá svona egó búst fyrir HM.“
Ertu með einhver markmið sem þú vilt deila með okkur?
„Aðalmarkmiðið myndi ég segja er að fara og geta keppt vel og bara eiga gott mót. Mæta og vera inni í keppninni. Maður veit náttúrulega aldrei hvað hinir gera. Það er alveg dálítið bratt að ætla sér að komast í úrslit en ef maður á góðan dag þá veit maður aldrei hvað gerist.“
Hvernig vinnur þú með spennu og væntingar fyrir svona stórt mót? Ertu með einhverja sérstaka rútínu eða aðferðir til að halda einbeitingu?
„Ég segi alltaf að þegar ég á mitt besta mót þá er líkaminn alveg að springa en hausinn alveg rólegur, þannig að það er svona markmiðið að geta haft stjórn á hausnum, að ná spennustiginu upp en geta haldið fókus. Svo er bara svo mikið í gangi á svona stórmótum að maður er smá týndur bara í mómentinu og það getur alveg hjálpað stundum. Pressan við að komast inn á mótið er búin núna fyrir mig allavega og núna fer maður bara og reynir að njóta og gera sitt besta.“
Hvað tekur við hjá þér eftir HM?
„Gott off season! Góð pása. Ég ætla aðeins að anda og vera aðeins á Íslandi. Svo vonandi fer ég til Köben í haust og get farið að æfa fyrir næsta tímabil.“
Hvaða ráð myndir þú gefa ungum íþróttakrökkum sem vilja feta í fótspor þín einn daginn og fara á stórmót í frjálsíþróttum?
„Mikilvægast er að hafa gaman að þessu. Hafa trú á sjálfum sér og trúa að þú getir þetta, þá kemur þetta. Það er það sem er búið að vera númer eitt, tvö og þrjú hjá mér, að hafa gaman og trúa því að maður geti þetta.“
Sýnt verður frá Heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum alla keppnisdagana á RÚV og RÚV2. Hægt er að sjá dagskrá útsendinga hér.
Sigurbjörn Árni fór yfir HM í skemmtilegu innslagi í íþróttafréttum RÚV í gær.
Einnig er gaman að segja frá því að Silja Úlfarsdóttir fékk Sigurbjörn Árna í heimsókn í hlaðvarpið sitt þar sem þau fóru saman yfir HM.
Mikil frjálsíþróttaveisla er framundan og við hvetjum að sjálfsögðu öll til að fylgjast með og þá sérstaklega með okkar frábæru keppendum þar sem Guðrún Karítas verður fyrst á svið á sunnudaginn 14. september.