Úrslit dagsins á Meistaramóti Íslands

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Úrslit dagsins á Meistaramóti Íslands

Um helgina fer Meistaramót Íslands fram á Selfossi og þar er okkar allra fremsta frjálsíþróttafólk meðal keppenda.

Mótið hófst í gærkvöldi og náðist flottur árangur í þeim greinum sem keppt var í og fengum við meðal annars að sjá Guðrúnu Karítas Hallgrímsdóttur setja glæsilegt nýtt Íslandsmet í sleggjukasti. Mótið hélt áfram í dag og var keppt til úrslita í 16 greinum.

Ingibjörg Sigurðardóttir (ÍR) kom fyrst í mark í 400 m grindahlaupi kvenna á 63,59 sek. Önnur var Súsanna Guðlaug Halldórsdóttir (UMSS) á 69,90 sek og þriðja var Hugrún Birna Hjaltadóttir (HSK/Selfoss) á 72,56 sek.

Í 400 m grindahlaupi karla kom Ívar Kristinn Jasonarson (ÍR) fyrstur í mark á 54,82 sek. Annar var Kjartan Óli Bjarnason (Fjölnir) á 58,19 sek og þriðji Pétur Óli Ágústsson (Fjölnir) á 58,86 sek.

Í hástökki karla stökk Hjálmar Vilhelm Rúnarsson (HSK/Selfoss) hæst eða 1,93 m. Annar var Birnir Vagn Finnsson (UFA) sem stökk 1,88 m og þriðji var Ægir Örn Kristjánsson (Breiðablik) sem stökk 1,83 m.

Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik) stökk lengst allra í langstökki kvenna eða 6,31 m. Önnur var Irma Gunnarsdóttir (FH) sem stökk 5,81 m og Christina Alba Marcus Hafliðadóttir (Fjölnir) sem stökk 5,49 m.

Hera Christensen (FH) vann kringlukast kvenna með kast upp á 51,82 m sem er nýtt mótsmet. Önnur var Kristín Karlsdóttir (FH) en hún kastaði 43,62 m og þriðja var Katharina Ósk Emilsdóttir (ÍR) sem kastaði 42,05 m.

Í 100 m hlaupi karla kom Ingvar Elíasson (ÍR) fyrstur í mark á 11,09 sek. Annar var Sveinbjörn Óli Svavarsson (UMSS) á 11,16 sek og þriðji í mark var Sæmundur Ólafsson (ÍR) á 11,30 sek.

Í 100 m hlaupi kvenna kom Eir Chang Hlésdóttir (ÍR) fyrst í mark á 11,95 sek. Önnur var Christina Alba Marcus Hafliðadóttir (Fjölnir) á 12,16 sek og þriðja í mark, á persónulegu meti, var Lena Rún Aronsdóttir (FH) á 12,30 sek.

Helga Þóra Sigurjónsdóttir (Fjölnir) vann hástökk kvenna en hún stökk 1,73 m. Jafnar í öðru sæti voru María Rún Gunnlaugsdóttir (ÍR) og Marsibil Þóra Í Hafsteinsdóttir (FH) sem stukku 1,65 m.

Í 800 m hlaupi karla kom Leó Örn Þórarinsson (FH) fyrstur í mark á 2:04,33 mín eftir hörkuspennandi endasprett við Þorvald Gauta Hafsteinsson (HSK/Selfoss) sem kom annar í mark á 2:04,73 mín. Þriðji í mark var Patrekur Ómar Haraldsson (Breiðablik) á 2:06,14 mín.

Í 800 m hlaupi kvenna kom Ísold Sævarsdóttir (FH) fyrst í mark á 2:19,16 mín. Önnur var Elín Sóley Sigurbjörnsdóttir (ÍR) á 2:20,27 mín. og þriðja í mark var Helga Lilja Maack (ÍR) á 2:22,13 mín.

Tobías Þórarinn Matarel (UFA) stökk lengst í langstökki karla eða 7,00 m, og er þetta í fyrsta sinn sem hann rýfur 7 metra múrinn. Eins má geta þess að Tobías er fæddur 2009 og er því aðeins 16 ára gamall og þetta stökk hans í dag er fjórða lengsta stökk sögunnar í flokki 16-17 ára pilta. Þessi árangur Tobíasar er einnig lágmark inn á EM U18 sem fram fer á Ítalíu næsta sumar. Virkilega vel gert hjá Tobíasi. Annar var Daníel Ingi Egilsson (FH) sem stökk 6,98 m og þriðji var Egill Atlason Waagfjörð (Katla) sem stökk 6,50 m.

Gestur Daníelsson (FH) kom fyrstur í mark í 3000 m hindrunarhlaupi karla á 12:08,61 mín. og annar var Arnar Pétursson (Breiðablik) á 12:15,41 mín.

Bryndís Embla Einarsdóttir (HSK/Selfoss) kastaði lengst í spjótkasti kvenna en lengsta kast hennar í dag var 45,67 m, sem er persónuleg bæting. Önnur var Elena Soffía Ómarsdóttir (UFA) með kast upp á 42,09 m og þriðja var María Rún Gunnlaugsdóttir (ÍR) sem kastaði 41,07 m.

Það var Sindri Hrafn Guðmundsson (FH) sem kastaði lengst í spjótkasti karla en lengsta kast hans í dag var 76,35 m. Annar var Örn Davíðsson (HSK/Selfoss) með kast upp á 60,27 m og þriðji var Garðar Atli Gestsson (UFA) sem kastaði 51,33 m sem er glæsileg persónuleg bæting um rúman þrjá og hálfan metra og í fyrsta skipti yfir 50 metra.

Í 4×100 m boðhlaupi kvenna kom sveit ÍR fyrst í mark á 48,65 sek. Önnur var sveit FH á 50,19 sek og þriðja var sveit Breiðabliks á 52,06 sek.

Í 4×100 m boðhlaupi karla kom sveit ÍR fyrst í mark á 43,65 sek. Önnur var sveit Fjölnis á 44,62 sek og þriðja var sveit UFA á 45,24 sek.

Í lok dags stendur stigakeppnin þannig að ÍR leiðir með 44,5 stig, þar á eftir kemur lið FH með 32,5 stig og í þriðja sæti er lið Fjölnis með 18 stig.

Heildarúrslit mótsins má sjá hér.

Hér má sjá tímaseðil og keppendalista.

Myndir frá helginni má sjá hér.

Meistaramót Íslands heldur áfram á morgun og hefst fyrsta greinin klukkan 11:00.

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Úrslit dagsins á Meistaramóti Íslands

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit