Um helgina fer Meistaramót Íslands fram á Selfossi og þar er okkar allra fremsta frjálsíþróttafólk meðal keppenda.
Mótið hófst núna fyrr í kvöld og var keppt til úrslita í sjö greinum.
Mótið hófst á 400 m hlaupi kvenna og þar kom Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir (ÍR) fyrst í mark á 56,36 sek. Önnur var Eyrún Svala Gustavsdóttir (Breiðablik) á 59,04 sek og þriðja var Hafdís Anna Svansdóttir (UÍA) á 59,59 sek.
Í 400 m hlaupi karla kom Sæmundur Ólafsson (ÍR) fyrstur í mark á 49,91 sek. Annar var Kjartan Óli Bjarnason (Fjölnir) á 50,51 sek og þriðji var Bjarni Anton Theódórsson (ÍR) á 51,42 sek.
Helga Lilja Maack (ÍR) kom fyrst í mark í 1500 m hlaupi kvenna á tímanum 4:48,17 mín. Önnur var Sara Mjöll Smáradóttir (ÍR) á 4:49,72 mín og þriðja Íris Dóra Snorradóttir (FH) á 4:53,56 mín.
Baldvin Þór Magnússon (UFA) kom fyrstur í mark í 1500 m hlaupi karla á tímanum 3:59,42 mín. Annar var Kristinn Þór Kristinsson á 4:01,81 mín og þriðji var Jökull Bjarkason (ÍR) á 4:09,91 mín.
Hanna María Petersdóttir (Fjölnir) vann stangarstökk kvenna en hún stökk 3,20 m. Önnur var Katrín Tinna Pétursdóttir (Fjölnir) sem stökk 2,90 m og þriðja var Ísold Assa Guðmundsdóttir (HSK/Selfoss) en hún stökk 2,70 m.
Í sleggjukasti karla kastaði Hilmar Örn Jónsson (FH) lengst allra eða 72,30 m. Annar varð Mímir Sigurðsson (FH) með kast upp á 50,45 m og Ingvar Freyr Sigurðsson varð þriðji en hann kastaði 45,25 m.
Í sleggjukasti kvenna kastaði Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir (ÍR) lengst allra eða 71,38 m sem er glæsilegt nýtt Íslandsmet og í fyrsta sinn sem Guðrún Karítas kastar sleggjunni yfir 70 metra en hún átti best 69,99 m frá því fyrr í vikunni. En þess má geta að Guðrún átti svo annað kast sem var yfir gamla Íslandsmetinu. Önnur varð Birna Jóna Sverrisdóttir (ÍR) með kast upp á 50,14 m og Hera Christensen (FH) varð þriðja en hún kastaði 45,43 m.
Heildarúrslit mótsins má sjá hér.
Hér má sjá tímaseðil og keppendalista.
Myndir frá helginni koma inn á Flickr síðu FRÍ seinna í kvöld.
Meistaramót Íslands heldur áfram á morgun og hefst fyrsta greinin klukkan 11:00.