Ísold Sævarsdóttir er mætt á sitt fyrsta Evrópumeistaramót U20 og keppir þar í sjöþraut. Við tókum stöðuna á henni rétt fyrir mótið og ræddum m.a. líðan hennar fyrir mót, markmið og ráð til ungs íþróttafólks sem vill ná langt í sinni íþrótt.
Nú ert þú að fara að keppa á Evrópumeistaramóti U20 í fyrsta skipti, hvernig ertu stemmd svona rétt fyrir mót?
“Ég er ótrúlega spennt! Það er alltaf gaman að fá að keppa á stórmótum í útlöndum og í geggjuðu veðri og aðstæðum. Svo ég er ótrúlega peppuð!”
Hvernig hefur undirbúningur fyrir mótið gengið?
„Hann hefur bara gengið frekar vel. Það er mikið af æfingum að sjálfsögðu þar sem ég er að keppa í þraut. Þannig að það er alveg nóg að gera, langar æfingar og mikið af þeim.”
Þú ert að fara að keppa í sjöþraut sem er auðvitað mjög krefjandi grein, hvernig undirbýrðu þig andlega fyrir tvo langa keppnisdaga?
„Ég hef náttúrulega alveg rosalega gaman af þessu þrátt fyrir að þetta sé krefjandi. Ég skoða keppinauta mína og hvað þau eiga og set mér helling af markmiðum sem ég reyni svo að ná. Þannig stend ég mig best.”
Talandi um markmið, ertu með einhver markmið sem þú vilt deila með okkur?
„Já, ég ætla nú fyrst og fremst að reyna að bæta árangurinn minn frá því í fyrra þegar ég var með léttari áhöld. Svo er ég með aðeins meira krefjandi markmið því ef allt gengur vel þá gæti ég átt sjéns í Íslandsmet kvenna, þannig að það er helsta markmiðið… ef ég get.”
Er einhver af sjö greinunum sem þér þykir skemmtilegri en aðrar?
“Akkúrat núna er ég mjög spennt fyrir langstökkinu. Ég á mikið inni þar og ég tla að bæta mig úti.”
Ertu með eitthvað lag á repeat sem kemur þér í gírinn?
„Ekkert eitthvað eitt lag en vanalega áður en ég keppi þá hlusta ég mikið á ABBA.”
Ertu með einhver skilaboð til ungs íþróttafólks sem langar til að ná svona langt eins og þú hefur náð og keppa fyrir Íslands hönd á alþjóðlegum mótum?
„Ef maður ætlar að skara fram úr þá þarf maður bara að leggja á sig vinnuna og ef þú virkilega vilt það þá er allt mögulegt. Svo bara vera dugleg að vinna í því sem þarf og gera allt sem þið getið til að ná markmiðunum, því þú getur náð þeim.”
Sjá má viðtalið við Ísold hér.
Við óskum Ísold innilega góðs gengis á mótinu og hlökkum til að fylgjast með henni um helgina!
Sjöþrautin hefst á 100 m grindahlaupi á morgun, laugardaginn 9. ágúst, klukkan 10:15 (7:15 að íslenskum tíma) og er Ísold í fyrsta riðlinum. Síðasta greinin er svo 800 m hlaup sem fer fram á sunnudaginn, 10. ágúst, klukkan 19:40 (16:40 að íslenksum tíma).