Frjálsíþróttafrömuðurinn Sveinn B. Sigmundsson lést 9. júlí síðastliðinn og fer útför hans fram í dag, 12. ágúst. Sveinn var einn af heiðursfélögum FRÍ og því viðeigandi að rifja upp þátt hans í frjálsíþróttastarfi á Íslandi í gegnum árin.
Sveinn hóf að starfa með frjálsíþróttadeild Ármanns fljótlega eftir að hann flutti frá Sauðárkróki til Reykjavíkur. Strax var ljóst að þarna var á ferðinni traustur og vandaður félagsmálamaður sem ávann sér strax virðingu og vináttu allra sem honum kynntust.
Sveinn var kjörinn í stjórn FRÍ árið 1975 og sat þar óslitið til ársins 1986, fyrst sem ritari en síðan lengst af sem gjaldkeri. Öll sín störf fyrir frjálsíþróttasambandið leysti hann með sérstökum sóma og oft við erfiðar aðstæður, sérstaklega þegar hann var gjaldkeri sambandsins.
Sveinn fór sem flokkstjóri frjálsíþróttafólks á Ólympíuleikana í Los Angeles árið 1984 auk þess sem hann fór í fjölmargar ferðir sem fararstjóri með íslensku frjálsíþróttafólki, m.a. var hann oft í fararstjórn í hinum árvissu Kalottferðum.
Sveinn var sæmdur eirmerki FRÍ árið 1974, silfurmerki árið 1977 og gullmerki árið 1980 og hann var svo gerður að heiðursfélaga FRÍ árið 2002.
FRÍ sendir fjölskyldu Sveins innilegar samúðarkveðjur og þakkar honum fyrir ómetanlegt framlag til frjálsíþróttahreyfingarinnar á Íslandi.