Íslensk frjálsíþróttafjölskylda í Svíþjóð – ný kynslóð út á brautina

Penni

4

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Íslensk frjálsíþróttafjölskylda í Svíþjóð – ný kynslóð út á brautina

Það er alltaf gaman þegar íslenskir frjálsíþróttaiðkendur láta að sér kveða erlendis. Systkinin Eyja Rún (16 ára) og Ari Freyr (13 ára) Gautabörn búa í Svíþjóð þar sem þau æfa og keppa í frjálsíþróttum af kappi og með frábærum árangri.

Við áttum skemmtilegt spjall við þau og föður þeirra Gauta Jóhannesson, sem sjálfur átti farsælan feril í frjálsíþróttum, um daginn og spjölluðum um æfingar, lífið í Svíþjóð og framtíðarplön þeirra.


Frjálsar úti á túni í Borgarfirði

„Við bjuggum í eitt ár á Íslandi þegar ég var nýfæddur,“ segir Ari. Hann og systir hans Eyja hafa því að mestu æft og keppt í Svíþjóð, en alltaf komið heim til Íslands í sumarfríum. Þá fer fjölskyldan í Borgarfjörðinn, þar sem þau eiga rætur að rekja, og æfir ýmist á vellinum í Borgarnesi – eða bara úti á túni.

„Krakkarnir hafa fengið lánað spjót og kúlu og notað bara úti á túni,“ segir Gauti. Það er einmitt það sem er svo dásamlegt við frjálsar – maður getur æft hvar sem er.


Íþróttalíf í Umeå

Fjölskyldan býr í Umeå, bæ sem er um 650 km norður af Stokkhólmi, þar sem íþróttalífið er fjölbreytt og blómlegt.

„Það er mikill áhugi á frjálsum í Svíþjóð,“ segir Eyja. „Ekki bara hjá frjálsíþróttafólki heldur almennt.“

Þau fylgjast grannt með stórstjörnunum – ekki síst sænska stangarstökkvaranum Armand Duplantis. „Við fylgdumst að sjálfsögðu með honum á HM þegar hann setti enn eitt heimsmetið,“ segir Gauti.

Auk frjálsíþrótta hafa bæði Eyja og Ari stundað aðrar íþróttir. Ari er á fullu í fótbolta og Eyja var lengi í blaki, auk þess sem þau stunduðu gönguskíði þegar þau voru yngri. „Það er auðveldara að stunda margar íþróttir hér en á Íslandi,“ segir Gauti. „Það kostar minna, þó fagmennska í þjálfun sé kannski meiri heima.“


Skólinn styður við íþróttafólkið

Eyja er 16 ára og stundar nám í menntaskóla þar sem íþróttaæfingar eru hluti af dagskránni. „Við æfum á morgnana fyrir skóla og svo aftur eftir skóla,“ segir hún. „Það virkar mjög vel.“

Í bekknum hennar eru krakkar úr ýmsum greinum – allt frá þríþraut og blaki til skíðamennsku og fótbolta. Þar hefur hún aðgang að þjálfurum, sjúkraþjálfurum og stuðningsneti sem gerir henni kleift að æfa á afreksleveli samhliða námi.


Árangurinn lætur ekki á sér standa

Eyja hefur þegar náð góðum árangri á stóra sviðinu. Í sumar keppti hún á Norðurlandameistaramótinu í fjölþrautum í Gautaborg og stóð sig einnig frábærlega á sænska meistaramótinu þar sem hún vann fern gullverðlaun – í 800 m hlaupi, 400 m grind, 400 m hlaupi og langstökki.

Þess má til gamans geta að hún á einnig áttunda besta tíma íslenskrar konu frá upphafi í 800 m hlaupi, 2:09,34 mínútur, sem er frábær árangur hjá þessari ungu íþróttakonu.

„Ég stefni á EM U18 næsta sumar,“ segir hún. Enn er óljóst hvort stefnan verði sett á sjöþraut eða 800 m hlaup, en það eru hennar sterkustu greinar.

Eyja Rún Gautadóttir

Ari hefur einnig sannað sig sem fjölhæfur keppandi. Hann hefur prófað sig áfram í fjölmörgum greinum – frá 600 m hlaupi og spjótkasti til hástökks og þrístökks. Hann á íslenska aldursflokkametið í flokki 13 ára pilta í 3000 m hlaupi, 10:11,67 mínútur.

„Ég vel oft uppáhaldsvegalengdina eftir því í hvaða hlaupi mér gengur best,“ segir hann hlæjandi. „Stundum 800 metrar, stundum 3000 metrar.“

Ari Freyr Gautason

Frjálsíþróttafjölskyldan

Í þessari fjölskyldu er frjálsíþróttaandinn heldur betur til staðar. Pabbi krakkanna, Gauti, var landsliðsmaður í hlaupum á sínum tíma og mamma þeirra margfaldur sænskur meistari í 800 m hlaupi – auk þess að hafa þjálfað krakkana, en í Svíþjóð er algengt að foreldrar iðkenda sjái um þjálfun barna og unglinga.

„Það er rosalega gaman að fylgjast með þeim,“ segir Gauti. „Þegar við förum á mót hittum við gamla keppinauta okkar sem núna eru foreldrar að fylgjast með sínum börnum. Það er komin næsta kynslóð út á völlinn.“


Tengslin við Ísland

Þrátt fyrir að þau keppi fyrir Svíþjóð eru tengslin við Ísland sterk. Eyja og Ari tóku bæði þátt á Unglingalandsmótinu á Egilsstöðum síðastliðið sumar og fjölskyldan kemur reglulega heim í Borgarfjörðinn.
„Það er alltaf gaman að hitta þau sem maður þekkir á Íslandi,“ segir Eyja.

Þegar kom að því að velja fyrir hvaða land Eyja ætlaði að keppa var valið ekki einfalt. „Það var smá erfitt en þar sem vinir mínir og félagar eru flestir hér í Svíþjóð fannst mér rétt að keppa fyrir Svíþjóð,“ útskýrir hún.


Björt framtíð

Framtíðin virðist björt hjá systkinunum. Eyja horfir til EM U18, en Ari hefur sína eigin metnaðarfullu drauma og langar að setja fleiri aldursflokkamet – hann hefur þegar sett nokkur íslensk aldursflokkamet og stefnir á fleiri.
Bæði sýna þau fjölhæfni, seiglu og metnað sem einkennir margt íþróttafólk.

Við erum ótrúlega stolt af þessu unga og efnilega frjálsíþróttafólki í Svíþjóð og hlökkum til að fylgjast með næstu skrefum þeirra – hvort sem það er í gulum búningi Svíþjóðar eða á íslenskum mótum næsta sumar.

Penni

4

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Íslensk frjálsíþróttafjölskylda í Svíþjóð – ný kynslóð út á brautina

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit