„Helsta markmiðið er að komast í úrslit“ – Sindri Hrafn tilbúinn í slaginn á HM í Tókýó

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

„Helsta markmiðið er að komast í úrslit“ – Sindri Hrafn tilbúinn í slaginn á HM í Tókýó

Heimsmeistaramótið í frjálsíþróttum fer fram í Tókýó í Japan dagana 13.-21. september og í ár taka þrír íslenskir frjálsíþróttakeppendur þátt. Heimsmeistaramótið er eitt stærsta frjálsíþróttamót heims og þangað mætir allt besta frjálsíþróttafólkið og því einstakt tækifæri fyrir íslenska keppendur að etja kappi við heimselítuna í sportinu.

Næstur út á völlinn í Tókýó er spjótkastarinn Sindri Hrafn Guðmundsson en hann tekur þátt í undankeppni spjótkasts karla á morgun, miðvikudaginn 17. september. Sindri er í fyrri kasthópnum sem keppir klukkan 19:10 að staðartíma (klukkan 10:10 að íslenskum tíma).

Sindri Hrafn er margfaldur Íslandsmeistari í spjótkasti og lengsta kast hans er 82,55 m frá því í fyrra en í ár hefur hann kastað lengst 81,39 m. Lengsta kast Sindra, 82,55 m, er þriðja lengsta kast íslensks karlmanns frá upphafi.

Þó að þetta sé fyrsta heimsmeistaramót Sindra í fullorðinsflokki þá er hann samt sem áður með þó nokkra stórmótareynslu. Hann hefur keppt á heimsmeistaramótum unglinga, Evrópumeistaramótum unglinga og svo var hann með keppenda á Evrópumeistaramótinu í Berlín árið 2018 og í Róm 2024.

Það eru 37 keppendur skráðir til leiks í undankeppni spjótkastsins og þar á meðal er sá sem á lengsta kast ársins, hinn þýski Julian Weber sem hefur lengst kastað 91,51 m. Heimsmetið í greininni er frá 1996 en það á Jan Zelenský frá Tékklandi og er það 98,48 m.

Það verður virkilega gaman að fylgjast með Sindra Hrafni á hans fyrsta heimsmeistaramóti en hann hefur átt hið fínasta tímabil og nær vonandi að toppa sig á morgun.

Við hittum Sindra Hrafn áður en hann flaug út til Japan til að taka stöðuna á honum svona rétt fyrir HM.

Til hamingju með HM sætið! Hvernig var tilfinningin þegar það var staðfest að þú værir á meðal þeirra sem fengju sæti á heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum núna í september?

„Hún var alveg hrikalega góð. Ég er búinn að vera í kringum 29.-31. sætið núna í cirka mánuð. En mjög góð tilfinning að fá þessa staðfestingu á því að ég sé á leiðinni til Tókýó.“

Þú hefur átt fínt tímabil með nokkuð stöðugum árangri – hvernig metur þú stöðuna hjá þér svona rétt fyrir HM?

„Já, bara fína sko. Búið að vera fínt tímabil hingað til. Smá svona upp og niður en þannig eru náttúrulega frjálsar. Flott að vera líka núna hér með Einari þjálfaranum mínum síðustu vikurnar og fram að Tókýó.“

Þú hefur áður keppt á stórmótum, bæði í unglingaflokki og fullorðinsflokki – hvernig nýtist sú reynsla þér núna þegar þú mætir á eitt stærsta sviðið í frjálsíþróttum, sem HM er?

„Þessi mót eru öll mjög svipuð. Það er call room, sem er aðeins öðruvísi heldur en mótin heima á Íslandi og úti í Bandaríkjunum, þar sem eru ekki þessi stóru call room. En ég held að það muni bara virka vel fyrir mig þar sem ég hef gert það núna nokkrum sinnum.“

Ertu með einhver markmið sem þú vilt deila með okkur?

„Já, já, helsta markmiðið er að komast í úrslit og svo bara reyna sitt besta þaðan.“

Hvernig vinnur þú með spennu og væntingar fyrir svona stórt mót? Ertu með einhverja sérstaka rútínu eða aðferðir til að halda einbeitingu?

„Öll frjálsíþróttamót eru í rauninni eins fyrir mig. Við erum með góða rútínu sem við förum í gegnum, ég og Einar saman. Þannig að ég reyni bara að halda áfram að gera hlutina eins og vera ekkert að breyta hlutunum.“

Hvað tekur við hjá þér eftir HM?

„Þá er bara smá pása í tvær, þrjár vikur og svo bara fara að æfa fyrir næsta tímabil.“

Hvaða ráð myndir þú gefa ungum íþróttakrökkum sem vilja feta í fótspor þín einn daginn og fara á stórmót í frjálsíþróttum?

„Þetta sport er svolítið þannig að þú kemur með sportinu. Þó að þú sért ekkert endilega sá besti í unglingaflokknum þá gerast hlutirnir mjög hratt þegar þú byrjar að eldast. Þannig að bara halda áfram og gera sitt besta á hverri æfingu og á mótum.“

Sýnt verður frá Heimsmeistaramótinu í frjálsíþróttum alla keppnisdagana á RÚV og RÚV2. Hægt er að sjá dagskrá útsendinga hér.

Penni

3

min lestur

Fólk í frétt

Deila

„Helsta markmiðið er að komast í úrslit“ – Sindri Hrafn tilbúinn í slaginn á HM í Tókýó

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit