Frábært stangarstökksnámskeið með Yoann Rouzières í Laugardalshöll um helgina

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Frábært stangarstökksnámskeið með Yoann Rouzières í Laugardalshöll um helgina

Núna um helgina, dagana 7.–9. nóvember, fór fram virkilega skemmtilegt og metnaðarfullt stangarstökksnámskeið í Laugardalshöllinni undir stjórn franska þjálfarans Yoann Rouzières. Námskeiðið var á vegum FRÍ og var ætlað bæði þjálfurum og iðkendum, sem mynduðu flottan, áhugasaman og virkan hóp. Yoann er fyrrum stangarstökkvari sem keppti fyrir unglingalandslið Frakklands í stangarstökki og í dag er hann leiðtogi norska unglingalandsliðsins í greininni.

Tæknivinna og einstaklingsmiðuð nálgun

Á föstudeginum hófst námskeiðið á æfingu þar sem farið var yfir tæknileg atriði með áherslu á einstaklingsbundna greiningu og endurgjöf.

Laugardagurinn hófst á fyrirlestri á skrifstofu FRÍ, þar sem Yoann fjallaði um „Steps, tools, and key elements to upgrade towards international standards (U18/U20/U23)“. Þar ræddi hann m.a. lykilþætti árangurs í stangarstökki, undirbúning fyrir mót og fagmennsku í umgjörð teymis. Svo var önnur æfing seinnipart laugardags þar sem lögð var áhersla á hlaupatækni, líkamsstöðu og styrktarþjálfun, m.a. með plýómetrískum æfingum og fimleikavinnu.

Á sunnudeginum lauk námskeiðinu með æfingu þar sem farið var dýpra í ýmsar tækniæfingar, sem skapaði góða heildarmynd af samfelldri færniþjálfun í greininni.

Áhugasamur hópur

Þátttakendur sýndu mikinn áhuga alla helgina og var stærð hópsins þannig að mögulegt var að veita öllum góða athygli og einstaklingsmiðaða endurgjöf. Að sögn Yoann var frábært að sjá hversu einbeittir og áhugasamir íslenskir iðkendur og þjálfarar eru um að þróa greinina enn frekar. Yoann er mjög bjartsýnn varðandi framtíð stangarstökks á Íslandi og sér tækifæri til framþróunar í greininni og mikinn metnað meðal bæði þjálfara og íþróttamanna.

Efling fagþekkingar og tengslanets

Frjálsíþróttasamband Íslands vill leggja áherslu á að efla faglega þekkingu og tengslanet innan sérgreina, og hefur samstarf við erlenda sérfræðinga eins og Yoann Rouzières reynst afar dýrmætt í því samhengi.

Þátttakendur fóru af námskeiðinu með nýjar hugmyndir, aukna færni og innblástur til áframhaldandi vinnu – bæði innan eigin æfingahópa og vonandi í þróun stangarstökks á Íslandi til framtíðar.

Penni

2

min lestur

Fólk í frétt

Deila

Frábært stangarstökksnámskeið með Yoann Rouzières í Laugardalshöll um helgina

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit