Heimsmeistaramótið í utanvegahlaupum (World Mountain & Trail Running Championships) fer fram dagana 25.–28. september í Canfranc-Pirineos á Spáni. Þar mætast fremstu fjalla- og utanvegahlauparar heims og í ár sendir Ísland eitt sitt öflugasta lið til þessa.
Keppni í 82 km hlaupinu (e. long trail) fór fram í dag, 27. september, og þar áttum við Íslendingar fimm keppendur, sem stóðu sig alveg frábærlega.
- Þorbergur Ingi Jónsson – 47. sæti á 10:22,23 klst.
- Sigurjón Ernir Sturluson – 60. sæti á 10:47,10 klst.
- Elísa Kristinsdóttir – 11. sæti á 11:10,24 klst.
- Andrea Kolbeinsdóttir – 13. sæti á 11:12,39 klst.
- Guðfinna Björnsdóttir – 29. sæti á 11:58,21 klst.
Um var að ræða mjög erfiða og krefjandi braut þar sem hækkunin var samtals 5413 m og það voru 179 karlar sem fóru af stað og 124 konur.
Þetta er því alveg einstaklega góður árangur hjá íslensku hlaupurunum og við getum ekki verið annað en verið mjög stolt af okkar frábæru hlaupurum sem kepptu í 82 km hlaupinu í dag.
Það er ekki aðeins keppt í einstaklingskeppni á HM í utanvegahlaupum heldur er einnig keppt í sveitakeppni. Það eru þrír sem mynda sveit og íslenska kvennasveitin í dag lenti í 5. sæti af 23 löndum sem náðu að mynda sveit sem er auðvitað glæsilegur árangur á heimsmeistaramóti í greininni. Þar sem íslensku karlarnir í 82 km hlaupinu voru tveir þá tóku þeir ekki þátt í sveitakeppninni.
Til hamingju með árangurinn, frábæru hlauparar.
Hérna er hægt að skoða heildarúrslit hlaupsins í dag.
Þá hafa íslensku keppendurnir lokið keppni á heimsmeistaramótinu í utanvegahlaupum og stóðu sig alveg frábærlega. Við sendum þeim góða strauma og kveðjur eftir þessi krefjandi verkefni sem þau tókust á við í dag og í gær.