Um þjálfaranámskeið Frjálsíþróttasamband Íslands

Leiðbeiningar

PDF

Reglur og leiðbeiningar um framkvæmd utanvegahlaupa

Þjálfaramenntun Frjálsíþróttasambands Íslands (FRÍ) byggir á fræðslukerfi Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) í þjálfaramenntun. Þjálfaramenntuninni er skipt niður í þrjú stig.

Hvert stig samanstendur af almennu þjálfaranámskeiði hjá ÍSÍ sem og sérhæfðu frjálsíþróttaþjálfaranámskeiði hjá FRÍ. Til að loka hverju stigi þarf að klára bæði námskeiðið hjá ÍSÍ sem og FRÍ.

1. stig – Þjálfun barna yngri en 12 ára / byrjenda (120 kennslustundir – 60 hjá ÍSÍ og 60 hjá FRÍ)

Hæfniviðmið að loknu námi á 1. stigi ÍSÍ:

Að loknu þessu stigi á þjálfarinn að geta skipulagt og stjórnað æfingatíma hjá börnum og unglingum á byrjendastigi. Til þess þarf hann að hafa grundvallarþekkingu á líkamlegum og andlegum þroska barna og unglinga. Hann þarf að þekkja starfsemi líkamans auk helstu aðferða við kennslu. Þjálfarinn á að kunna helstu grunnatriði í tækni, leikfræði og reglum í séríþróttagrein.

Hæfniviðmið að loknu námi á 1. stigi FRÍ:

Að loknu námi á 1. stigi FRÍ á nemandi að hafa:

Þekkingu á: vexti og þroska barna og tengslum við þjálfunarglugga, þjálfunarþáttum, grunntækni frjálsíþrótta, grunnreglum í frjálsíþróttum, móta- og keppnisfyrirkomulagi barna U12 ára, leikjum og æfingum sem henta við þjálfun og kennslu frjálsíþrótta.

Leikni í: að byggja upp og skipuleggja æfingatíma, hópskiptingum og að stýra hóp.

Hæfni til: að skipuleggja og stýra æfingum í frjálsíþróttum hjá krökkum undir 12 ára aldri, að nota leiki og frjálsíþróttalíkar æfingar til þess að þjálfa mismunandi þjálfunarþætti og efla færni iðkenda í grunnhreyfingum og frjálsíþróttatengdum æfingum og greinum.

Viðfangsefni 1. stigs FRÍ: Vöxtur/þroski og þjálfunargluggar; hlutverk þjálfarans; að stjórna hóp/samskipti; öryggi og skipulag æfinga (tímaseðlagerð); virkni á æfingum; leikir og æfingar; grunnur að frjálsíþróttagreinum – spretthlaup, grindahlaup, boðhlaup, lengri hlaup, hástökk, langstökk, spjótkast, kúluvarp, kringlukast; keppnisfyrirkomulag og mót; keppnisreglur.

Inntökuskilyrði er 16 ára aldur og grunnskólapróf. 

Þegar stiginu er lokið fær viðkomandi réttindi sem þjálfari barna 12 ára og yngri.

2. stig – Þjálfun unglinga yngri en 16 ára (120 kennslustundir– 40 hjá ÍSÍ og 80 hjá FRÍ) (WA Level 1)

Hæfniviðmið að loknu námi á 2. stigi ÍSÍ:

Að loknu þessu stigi á þjálfarinn að geta þjálfað unglinga og fullorðna sem hafa árangur í keppni að markmiði. Til þess þarf hann að hafa haldgóða þekkingu á starfsemi líkamans og skipulagi þjálfunar til lengri og skemmri tíma. Hann þarf að hafa undirstöðuþekkingu á hreyfingarfræði og kunna grunnatriði í sálfræði íþrótta. Þjálfarinn þarf að hafa fengið þjálfun í að tjá sig og koma fram fyrir framan hóp af fólki. Þjálfarinn þarf að hafa góða þekkingu á tækni, leikfræði og reglum í séríþróttagrein. Auk þess þarf hann að kunna skil á helstu þjálfunaraðferðum viðkomandi greinar.

Hæfniviðmið að loknu námi á 2. stigi FRÍ:

Að loknu námi á 2. stigi FRÍ á nemandi að hafa:

Þekkingu á: Tækni frjálsíþrótta, keppnisreglum, þjálfunarþáttum, skipulagningu þjálfunar, móta- og keppnisfyrirkomulagi í frjálsíþróttum, æfingum sem henta við þjálfun frjálsíþrótta.

Leikni í: að byggja upp og skipuleggja æfingatíma og þjálfunaráætlanir, leiðrétta og segja til varðandi grunntæknilega útfærslu iðkanda í öllum frjálsíþróttagrein.

Hæfni til: að skipuleggja æfingar og þjálfunaráætlanir, að leiðbeina með tækni frjálsíþrótta, þjálfa unglinga sem hafa árangur í keppni að markmiði.

Viðfangsefni 2. stigs FRÍ: Tæknileg greining frjálsíþróttagreinanna, skipulag þjálfunar, þjálfunaráætlanir, inngangur að fræðilegum bakgrunni – líffæra- og lífeðlisfræði, hreyfingafræði, aðlaganir.

Inntökuskilyrði er 18 ára aldur, að hafa lokið 1. stigi, 6 mánaða starfsreynsla og gilt skyndihjálparskírteini.

Þegar stiginu er lokið fær viðkomandi réttindi sem þjálfari U16.

3. stig – Sérhæfing í greinahóp (120 kennslustundir – 40 hjá ÍSÍ og 80 hjá FRÍ) (WA Level 2)

Hæfniviðmið að loknu námi á 3. stigi ÍSÍ:

Að loknu þessu stigi á þjálfarinn að geta tekið að sér að skipuleggja og útfæra þjálfun hjá félagi eða deild. Hann á að geta tekið að sér þjálfun yngri landsliða og kennt á námskeiðum hjá sérsamböndum og ÍSÍ.

Hæfniviðmið að loknu námi á 3. stigi FRÍ:

Að loknu námi á 3. stigi FRÍ á nemandi að hafa:

Þekkingu á: tækni greina innan greinahóps, þjálfunarþáttum, skipulagningu þjálfunar, móta- og keppnisfyrirkomulagi í frjálsíþróttum, æfingum sem henta við þjálfun innan greinahópsins.

Leikni í: að byggja upp og skipuleggja æfingatíma og þjálfunaráætlanir fyrir greinahópa, leiðrétta og segja til varðandi tæknilega útfærslu iðkanda í hlaup-, kast- eða stökkgreinum.

Hæfni til: að skipuleggja þjálfun m.t.t. afreksmennsku, leiðbeina og leiðrétta tækni innan greinahóps, þjálfa íþróttamenn með afreksmennsku að markmiði.

Viðfangsefni 3. stigs FRÍ: Sérhæfing í einhverjum af greinahópum: spretthlaupsgreinar (til og með 400m, boðhlaup, grindahlaup), millivegalengda- og langhlaup (800m og lengra, hindrunarhlaup), stökkgreinar (lang-, há-, þrí- og stangarstökk), kastgreinar (kúluvarp, spjót-, kringlu- og sleggjukast). Sérhæfðar þjálfunaraðferðir fyrir greinar innan greinahópa, tæknileg greining, skipulag þjálfunar, þjálfunaráætlanir. 

Inntökuskilyrði er 20 ára aldur, hafa lokið öðru þjálfarastigi. Eins árs starfsreynsla frá lokum þjálfarastigs 2.

Þegar stiginu er lokið fær viðkomandi réttindi sem sérgreinaþjálfari í greinahóp. 

Sérgreinahluti FRÍ – viðfangsefni / innihald 3. stigs:

Sérhæfing í einhverjum af greinahópum: spretthlaupsgreinar (að 400m, boðhlaup, grindahlaup), millivegalengda- og langhlaup (800m og lengra, hindrunarhlaup), stökkgreinar (lang-, há-, þrí- og stangarstökk), kastgreinar (kúluvarp, spjót-, kringlu- og sleggjukast).

Sérgreinahluti á þriðja stigi hjá FRÍ verði í formi námskeiða og þjálfararáðstefna erlendis sem metnar verði inn til FRÍ ásamt því að vera starfandi þjálfari. Áttatíu kennslustundir fyrir hvern sérgreinahóp.

Nánari fyrirspurnir

Deila

Um þjálfaranámskeið Frjálsíþróttasamband Íslands

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit