Yfirlýsing vegna hlaupaviðburða ÍBR

Penni

2

min lestur

Deila

Yfirlýsing vegna hlaupaviðburða ÍBR

Í ljósi umræðu um framkvæmd og vottun götuhlaupa vill Frjálsíþróttasamband Íslands (FRÍ) árétta eftirfarandi varðandi viðburði sem Íþróttabandalag Reykjavíkur (ÍBR) er framkvæmdaraðili að þ.e. Miðnæturhlaup Suzuki og Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka.

Reglugerðin um framkvæmd götuhlaupa er skýr. Reglugerðin var samþykkt árið 2018 og með gildistöku hennar var lögð sú lína að einungis götuhlaup sem uppfylltu skilyrði hennar skyldu teljast viðurkennd úrslit og þar með skráð í miðlægan gagnagrunn FRÍ. Á liðnu ári kynnti sambandið gjaldskrá fyrir vottun götuhlaupa sem aðgengileg er á vef sambandsins. Innheimt er grunngjald fyrir umsýslu og dómgæslu á hlaupadag (nú 45.000) og 150,- kr fyrir hvern hlaupara sem lýkur hlaupi, sem FRÍ felur framkvæmdaraðila að innheimta sem hluta af þátttökugjöldum.

FRÍ og ÍBR hafa átt í samskiptum undanfarin ár um málið. ÍBR hefur óskað eftir sérmeðferð og undanþágu frá reglugerðum sambandins fyrir sína viðburði, s.s. varðandi 150,- kr gjald fyrir alla hlaupara sem ljúka keppni, sem komið var til móts að hluta til á síðasta ári á aðlögunartímabili. FRÍ hefur þannig sýnt góðan vilja til samstarfs, en eitt verður að sjálfsögðu yfir alla að ganga. Það gengur augljóslega gegn grundvallar fyrirkomulagi íþróttahreyfingarinnar að íþróttafélög og héraðssambönd semji um hvaða reglum þeirra viðburðir eigi að fylgja. Samtal um breytingar fer fram á sérstökum vettvangi. Frá reglugerðinni og gjaldskránni hefur og verður ekki kvikað. 

Engar athugasemdir við reglugerðir FRÍ komu frá ÍBR á nýliðnu þingi FRÍ. 

Þá er rétt að árétta að það er á ábyrgð FRÍ, líkt og annarra sérsambanda, að halda utan um opinber úrslit í sinni íþróttagrein og varðveita til framtíðar. Gagnasafn FRÍ geymir margra áratuga sögu og eru sögulegar heimildir um þátttöku í frjálsíþróttum, þar með talið almenningshlaupum, á landsvísu. Afrek, stór sem smá. Slík skrá er verðmætari eftir því sem fleiri eru skráðir í hana. Þess vegna leggur FRÍ upp með að það sé meginregla að tímar allra þátttakenda, sem samþykkja að birta úrslit sín á annað borð, séu færðir inn í skrána en ekki aðeins tímar þeirra sem óska sérstaklega eftir því að fá úrslit sín send til FRÍ. Að öðrum kosti myndast misræmi á milli opinberra úrslita samkvæmt gagnasafni FRÍ og hlaupahaldara. 

Að lokum fagnar FRÍ sérstaklega góðum og jákvæðum undirtektum hlaupahaldara landsins við þetta framtak sambandsins. Með því styðja þeir við mikla vinnu sjálfboðaliða FRÍ undanfarin ár, fólks sem brennur fyrir bættri umgjörð hlaupa, hlauparanna vegna! Hlaupahaldarar senda nú hverja umsóknina á fætur annarri um að hlaup og úrslit þeirra verði viðurkennd af FRÍ, án sérsamninga. Vonandi bætist ÍBR í þann hóp sem allra fyrst.

Penni

2

min lestur

Deila

Yfirlýsing vegna hlaupaviðburða ÍBR

Skrifstofa

Engjavegur 6, 104 Reykjavík

Netfang

fri@fri.is

Sími

+354 514 4040

Search

Dæmi um leit