Vormót ÍR

Vormót ÍR fór fram á Laugardalsvelli í ágætisveðri í gærkvöldi. Keppt var í fjölda greina en meðal annars keppti Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir í 100m hlaupi en eins og alþjóð veit er hún nýkrýndur Íslandsmethafi í 200m hlaupi. Hún sigraði  á tímanum 12,04 sekúndum.  Í 100m hlaupi karla sigraði Jóhann Björn Sigurbjörnsson, UMSS þegar hann hljóp á 10,85 sekúndum en Jóhann Björn keppti einnig í 200m hlaupi og sigraði þar einnig örugglega á 21,93 sekúndum. Í 200m hlaupi kvenna sigraði Tiana Ósk Whitworth á nýrri glæsilegri bætingu þegar hún hljóp á 24,21 sekúndum sem er aðeins 1/100 úr sekúndu frá lágmarki HM U20 ára.

Flestir af bestu kösturum landsins voru saman komin á kastsvæðinu. FH-ingurinn Hilmar Örn Jónsson var að keppa á sínu fyrsta móti á Íslandi síðan hann tók þátt á NCAA í Bandaríkjunum fyrir skömmu. Hilmar Örn sigraði örugglega og  í sleggjukasti kvenna sigraði Vigdís Jónsdóttir, FH sem er einnig nýkomin heim frá Bandaríkjunum þar sem hún stundar nám og keppir fyrir háskóla þar í landi.
Í kringlukasti sigruðu ÍR-ingarnir Guðni Valur Guðnason og Thelma Lind Kristjánsdóttir örugglega í sínum flokkum með góðar kastseríur og í spjótkasti karla sýndi Dagbjartur Daði Jónsson góða takta þegar hann kastaði spjótinu nokkru sinnum yfir 70metra og sigraði örugglega.

Með síðustu greinum mótsins var hið sögulega Kaldalshlaup sem er árlegt 3000metra hlaup kennt við Jón Kaldal. Jón Kaldal var einn fremsti langhlaupari Íslands á fyrri hluta síðustu aldar og keppti hann m.a. á Ólympíuleikunum í Antwerpen árið 1920. Sigurvegari í Kaldalshlaupinu í ár var Bjartmar Örnuson sem keppir fyrir KFA á tímanum 9:00,44mínútum.

Frekari úrslit má skoða hér 

Á myndinni má sjá Bjartmar Örnuson ásamt keppinautum sínum og Ómari Kaldal sem er sonarsonur Jóns Kaldal