Vill standa sig vel á MÍ

Dagbjartur Daði Jónsson er spjótkastari úr ÍR og verður hann á meðal keppenda á Meistaramóti Íslands á Akureyri um helgina. Hann á piltametið 20-22 ára og komst í úrslit á EM U23 síðasta sumar. Hans besti árangur er 78,30 metrar sem setur hann í sjötta sæti íslenska afrekalistans frá upphafi. 

Kastaði spjóti í fyrsta skipti 10 ára

„Ég er búinn að vera í kringum frjálsar eiginlega frá því ég fæddist útaf foreldrum mínum sem voru bæði að æfa á þeim tíma. Þau eru núna orðnir þjálfarar en ég held að ég hafi mætt á mína fyrstu almennilegu æfingu um sex eða sjö ára,“ segir Dagbjartur. 

Foreldar Dagbjarts eru Martha Ernsdóttir og Jón Oddsson. Martha er einn fremsti langhlaupari Íslands frá upphafi en hún á öll Íslandsmetin frá 5.000 metra hlaupi upp í maraþon og keppti í maraþoni á Ólympíuleikunum árið 2000. Jón var landssliðsmaður bæði í frjálsum og fótbolta og átti Íslandsmetið í langstökki innanhúss um tíma. 

Dagbjartur með foreldrum sínum eftir sigur Íslands í 3. deild Evrópubikars síðasta sumar

Dagbjarti minnir að hann hafi verið í kringum 10 ára þegar hann kastaði spjóti í fyrsta skipti, honum fannst hann kasta frekar langt og eftir það hafi ekki verið aftur snúið. Í kjölfarið ákvað hann að þetta væri hans grein og ætlaði að verða bestur í heimi í henni segir hann með bros á vör. 

Á fullu í tónlist

Fyrir utan frjálsíþróttavöllinn hefur Dagbjartur verið iðinn við það að gefa út tónlist. „Ég byrjaði að gera tónlist á fyrsta ári í menntaskóla og þá bara að gera takta. Seinna meir fór ég að hafa meiri áhuga að skrifa texta og rappa eða syngja yfir taktana sem ég var að gera og er það frábær tjáningarleið fyrir allskonar hluti,“ segir Dagbjartur. Í frjálsíþróttapartýum hefur Dagbjartur oftar en ekki stigið á svið og haldið stemningunni uppi við góðar undirtektir. Hann segist aðallega gera tónlist þar sem það sé ótrúlega gaman og gott mótvægi á móti spjótinu. „Mér finnst mjög mikilvægt að hafa eitthvað til hliðar sem tengist íþróttum ekkert til að sökkva sér í og gleyma spjótinu í nokkra tíma.“

Vill standa sig vel á MÍ

Spurður um það hvernig æfingar hafi gengið hjá honum í vetur segir hann að þær hafi í mestu gengið vel miðað við aðstæður og hann komi vel undirbúinn inn í sumarið. „Upphaf tímabilsins hefur verið pínu upp og niður og ég hef verið alveg mjög óheppinn með aðstæður eins og það á til að gerast hérna heima, en ég kastaði mitt lengsta kast sem ég hef kastað á Íslandi á Vormóti HSK þannig það er stór plús,“ segir Dagbjartur.

Dagbjartur segir að sumarið hafi verið pínu í lausu lofti og hann hafi lengi verið að bíða eftir því að komast út að keppa. Það gerði hann svo síðustu helgi þar sem hann keppti í Svíþjóð í undirbúningi sínum fyrir MÍ. „Annars langar mig að standa mig vel á MÍ og kasta bara sem lengst í sumar til þess að auka líkurnar á því að komast á góð mót á næsta ári fyrir Ólympíuleikana,“ segir Dagbjartur.

Dagbjartur á Smáþjóðaleikunum í fyrra

Kastaði fyrir framan tíu þúsund áhorfendur

Eitt eftirminnilegasta atvikið á ferlinum segir Dagbjartur að hafi verið á Meeting Madrid í fyrra. Þar voru um tíu þúsund áhorfendur á vellinum og stemningin klikkuð. Hann hefur aldrei skemmt sér jafn mikið á móti og gaf þetta honum mikla hvatningu inn í veturinn til þess að komast á fleiri og stærri mót. 

Um rútinu fyrir keppni segist hann ekki hafa neina sérstaka rútínu en eykur kolvetnainntöku degi fyrir og á keppnisdegi. „Á keppnisdag vil ég vera vaknaður allavegana sex tímum fyrir keppni og borða svona fjórum tímum fyrir. Ég reyni að vera ekki með neina rútínu nema yfir hlutum sem ég get stjórnað hvert sem ég fer í heiminum.“

Aðspurður um ráð til yngri iðkenda segir Dagbjartur: „Ég myndi bara segja að alltaf hafa trú á sjálfum þér og aldrei gefast upp, það hefur alltaf komið mér langt og ég tel það vera einn af mínum bestu kostum. Ég trúi innilega að ef þú trúir nægilega mikið á eitthvað þá geta ótrúlegustu hlutir gerst.“