Vilhjálmur Einarsson látinn

Frjálsíþróttahreyfingin syrgir nú einn af sínum allra fremstu sonum eftir að hinn frækni þrístökkvari, silfurmaðurinn Vilhjálmur Einarsson lést í gærkvöldi á Landspítalanum í Reykjavík á sínu 86. aldursári.

Vilhjálmur Einarsson

Afrek Vilhjálms eru einstök á íþróttasviðinu, silfur á Ólympíuleikum, brons á Evrópumóti og Íslandsmet í þrístökki sem brátt hefur staðið í sextíu ár! Að vonum hlaut Vilhjálmur margvíslegar viðurkenningar fyrir afrek sín, meðal annars var hann alls fimm sinnum útnefndur Íþróttamaður ársins, oftar en nokkur annar og var fyrstur manna tekinn inn í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2012.

Að keppnisferli loknum vann Vilhjálmur ötullega að því að efla ungt fólk, fræða og hvetja á sviði íþrótta- og menntamála bæði austan lands sem vestan.

Vilhjálms er minnst í helstu fjölmiðlum í dag og má þar nefna umfjöllun RÚV, umfjöllun mbl.is og umfjöllun á visir.is. Á þessum vef birtist í sumar umfjöllun um afrek Vilhjálms á 85 ára afmæli hans, sjá hér.

Synir Vilhjálms og eftirlifandi eiginkonu hans, Gerðar Unndórsdóttur eru þeir Rúnar, Einar, Unnar, Garðar, Hjálmar og Sigmar. Eru þeir bræður þekktir fyrir vaska framgöngu innan vallar sem utan. Á sviði FRÍ má nefna að Einar er fyrrum formaður FRÍ, Íslandsmethafi í spjótkasti og þjálfari afreksmanna í spjótkasti, Unnar er vinsæll og mikilvirkur þjálfari og fyrrum Íslandsmethafi í hástökki og Sigmar fyrrum unglingamethafi í spjótkasti.

Að leiðarlokum minnist FRÍ Vilhjálms og hans einstöku afreka af virðingu og þakklæti. Afrek Vilhjálms hafa hvatt ungmenni til dáða í áratugi og munu gera áfram.

FRÍ færir Gerði, eftirlifandi eiginkonu Vilhjálms, sonum þeirra og fjölskyldum öllum innilegar samúðarkveðjur.