Í vikunni fór fram Evrópubikar landsliða í Silesia í Póllandi þar sem Ísland keppti í annarri deild. Tvö Íslandsmet voru sett á mótinu. 4x100m boðhlaupssveit karla setti Íslandsmet er þeir komu í mark á tímanum 40,27 sek. Svetina skipuðu þeir Gylfi Ingvar Gylfason, Kristófer Þorgrímsson, Dagur Andri Einarsson og Kolbeinn Gunnarsson. Sveitin varð í tíunda sæti og var fyrra metið 40,40 sek. Andrea Kolbeinsdóttir bætti eigið Íslandsmet í 3000m hindrun. Hún kom í mark á tímanum 10:08,85 mín. en fyrra metið var 10:21,26 síðan árið 2018. Kolbeinn Höður Gunnarsson jafnaði aftur Íslandsmet sitt og Ara Braga Kárasonar í 100m hlaupi á tímanum 10,51 sek og varð hann sjöundi greininni.

Það náðust tvö lágmörk á mótinu en þær Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Arndís Diljá Óskarsdóttir náðu lágmarki á EM U23 og EM U20. Guðbjörg náði lágmarki inn á EM U23 í 100m hlaupi á tímanum 11,70 sek. Hún er nú þegar komin með lágmark í 200m. Arndís Diljá Óskarsdóttir náði lágmarki á EM U20 í spjótkasti er hún kastaði 48,57m sem er einnig persónuleg bæting.
Daníel Ingi Egilsson varð annar í þrístökki karla með 15.82m. Erna Sóley Gunnarsdóttir varð þriðja í kúluvarpi kvenna með kasti upp á 16.93m. Guðni Valur Guðnason varð þriðji í kringlukasti með kasti upp á 63,34m.
Ísland lenti í fjórtánda sæti sem þýðir að við föllum því miður niður í þriðju deildina.
„Að sjálfsögðu eru það vonbrigði, við viðurkennum það alveg. Á heildina litið er ég mjög stoltur af liðinu. Evrópska frjálsíþróttasambandið breytti deildunum fyrir árið í ár, fór úr því að vera með fjórar deildir í þrjár deildir þannig við fórum upp um hálfa deild, ef svo má segja. Ég held að við munum berja í þessa bresti og nú vitum við nákvæmlega hvað við þurfum að gera til þess að halda okkur í þessari sterku deild sem við vorum í. Það verður markmiðið og vinna næstu tveggja ára að sjá til þess“ sagði Guðmundur Karlsson, Afreks- og framkvæmdastjóri FRÍ í viðtali við Morgunblaðið.

Freyja Nótt með annað aldursflokkamet
Freyja Nótt Andradóttir stórbætti þrettán ára gamalt aldursflokkamet í 80m hlaupi í flokki 13 og 14 ára flokki á Meistaramóti Íslands 11-14 ára. Hún kom í mark á tímanum 10,25 sek. en fyrra metið átti Elma Lára Auðunsdóttir og var það 10,40 sek. Það var lið HSK-Selfoss sem sigruðu í stigakeppni félagsliða af miklu öryggi og hlutu þau 924 stig. Í öðru sæti var lið FH með 582,5 stig og unnu FH-ingar til flestra gullverðlauna á mótinu eða átján talsins. Lið Breiðabliks var í því þriðja með 569,5 stig.
