Í vikunni féllu tvö Íslandsmet og var það í kúluvarpi kvenna innanhúss og 60 metra hlaupi kvenna innanhúss.
Erna Sóley Gunnarsdóttir stórbætti á föstudag eigið Íslandsmet í kúluvarpi kvenna innanhúss á Houston Invitational í Texas í Bandaríkjunum. Erna sigraði í keppninni með miklum yfirburðum og lengsta kast hennar mældist 17,34 metrar sem er einnig nýtt mótsmet. Fjögur af sex köstum Ernu voru yfir sautján metra og yfir gamla metinu sem var 16,95 metrar.
Þetta er einnig lengra en Íslandsmet hennar utanhúss sem er 17,29 metrar sem hún setti á Texas Relays í mars á síðasta ári.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir sigraði í sterku 60 metra hlaupi á Aarhus Sprint ‘n’ Jump í Árósum í Danmörku og bætti um leið eigið Íslandsmet. Hún kom í mark á tímanum 7,35 en fyrra metið hennar var 7,43 sem hún setti á síðasta ári og jafnaði síðan á Stórmótinu fyrir viku síðan.
Innanhússtímabilið fer vel afstað og er nú þegar búið að bæta fimm Íslandsmet. Irma Gunnarsdóttir (FH) bætti Íslandsmetið í þrístökki kvenna innanhúss í desember, Baldvin Þór Magnússon (UFA) bætti Íslandsmetið Í mílu hlaupi fyrr í mánuðinum, Kolbeinn Höður Gunnarsson (FH) í 60 metra hlaupi og nú Erna Sóley og Guðbjörg Jóna.
Framundan eru Reykjavíkurleikar sem fara fram í Laugardalshöll á sunnudaginn 5. febrúar og verður keppendalistinn birtur í vikunni. Kolbeinn Höður og Guðbjörg Jóna eru bæði skráð til leiks í 60 metra hlaupi ásamt erlendum keppendum og má búast við spennandi keppni.
Það má búast við stórkostlegri keppni í langstökki kvenna þar sem Íslandsmethafinn Hafsdís Sigurðardóttir (UFA) mætir til leiks ásamt Irmu Gunnarsdóttir sem er búin að stökkva lengst íslenskra kvenna í ár eða 6,36 metra sem er annað lengsta stökk konu frá upphafi í greininni. Aðeins Hafdís hefur stokkið lengra en Íslandsmet hennar í greininni er 6,54 metrar.
Miðasala á leikana er í fullum gangi á corsa.is ATH það er ekki hægt að kaupa miða á staðnum!
Meistaramót Íslands 15-22 ára
Um helgina fór fram Meistaramót Íslands 15-22 ára í Kaplakrika. Þrjú mótsmet féllu og Skarphéðinsmenn sigruðu með miklum yfirburðum í stigakeppni félagsliða.
Mótsmetin:
- Birna Kristín Kristjánsdóttir (Breiðablik) langstökk / 5,97m
- Guðjón Dunbar Diaquoi Þorsteinsson (Breiðablik) þrístökk / 14,38m
- Ívar Ylur Birkisson (Dímon) 60m. grindahlaup / 8,69 sek.
Mótin framundan
Dagsetning | Mót | Staður | Aldur |
---|---|---|---|
5. febrúar | Reykjavíkurleikar | Laugardalshöll | Blandað |
9. febrúar | Nike Mótaröðin | Kaplakriki | Fullorðnir |
11-12. febrúar | MÍ 11-14 ára | Laugardalshöll | 11-14 ára |
11-12. febrúar | Norðulandameistaramótið | Karlstad, Svíþjóð | Fullorðnir |
18-19. febrúar | Meistaramót Íslands | Laugardalshöll | Fullorðnir |