Baldvin Þór Magnússon varð um helgina þrefaldur svæðismeistari MAC (Mid-American Conference) en meistaramótið fór fram í Kent, Ohio. Baldvin var valinn ‘Men’s Most Valuable Performer’ og sigraði karlalið Eastern Michigan University stigakeppnina á mótinu.
Hann hóf keppnina á undanrásum í 800m hlaupi og kom í mark á 1:56,65 mín. sem var fjórði besti tíminn inn í úrslitin. Næsta grein var 5000 metra hlaup þar sem hann kom í mark á 14:21,21 mín. Á seinni degi meistaramótsins sigraði hann í 1 Mílu þar sem hann kom í mark á tímanum 4:07,00. Næsta grein var 800m úrslit þar sem hann vann sig upp um eitt sæti og fékk bronsið. Hann kom í mark á tímanum 1:53,04 mín. Síðasta grein Baldvins var 3000 metra hlaup þar sem hann sigraði á tímanum 8:20,72.
Trausti Þór Þorsteins mætti aftur á brautina eftir meiðsli og opnaði tímabilið á glæsilegum tíma í 3000m hlaupi á Boston University Last Chance Meet. Trausti kom ellefti í mark á tímanum 7:58,94 mín sem er risa bæting hjá honum en hann átti áður 8:16,17 mín. Þessi tími er annar besti tími frá upphafi innanhúss í 3000m hlaupi karla.
Erna Sóley Gunnarsdóttir var einnig á meðal keppenda á Boston mótinu og sigraði hún í kúluvarpi kvenna með kast upp á 16,70 metra.
Guðrún Karítas Hallgrímsdóttir keppti í lóðkasti á Atlantic 10 Conference Indoor Championships í Fairfax, Virginia á laugardag. Hún kastaði lóðinu 17,38 og hafnaði í 6. Sæti. Kvennalið Virginia Commonwealth University sigruðu stigakeppnina.
Óliver Máni Samúelsson og Dagur Andri Einarsson kepptu á G-MAC Indoor Championships í Findlay, Ohio. Í 60 metra hlaupi kom Dagur í mark á tímanum 7.10 sem skilaði honum 18. sætinu. Óliver kom í mark á tímanum 7.17 og hafnaði í 23. Sæti. Óliver var hraðastur allra í undanrásum í 200 metra hlaupi og kom í mark á 22,33 sek. Í úrslitunum varð Óliver fjórði á tímanum 22.32 sek.
Hekla Sif Magnúsdóttir keppti í þremur stökkgreinum á Lone Star Conference Indoor Championships sem fór fram í Lubbock, Texas. Hekla bætti sinn persónulega árangur í langstökki og stökk lengst 5,57 metra sem skilaði henni fjórða sætinu. Í hástökki fór hún 1,62 metra og hafnaði í sjötta sæti. Í þrístökki hafnaði hún einnig í fjórða sæti og stökk lengst 11,75 metra.
Hlynur Andrésson keppti í 10 km götuhlaupi á Gan Premio Citta di Misano á Ítalíu í gær. Hann kom fjórði í mark á tímanum 29:37 mín. Hann er búinn að hlaupa 29:24 hraðast í ár sem hann gerði í Valencia í janúar.