Dagbjartur Daði Jónsson (ÍR) vann til silfurverðlauna á Evrópubikarkastmótinu í Leiria, Portúgal í gær. Dagbjartur kastaði lengst 78,56 metra, aðeins sentímetra styttra en heimamaðurinn Leandro Ramos kastaði.
„Ég fílaði mig bara mjög vel hélt kúlinu allan tíman og fór aldrei í eitthvað overdrive sem getur gerst svona snemma á kastárinu. Serían var bara nokkuð góð nokkrir hlutir sem þarf að laga en overall mjög jákvætt,“ sagði Dagbjartur
Þetta er besta opnun á tímabili hjá Dagbjarti og þriðja lengsta kastið hans á ferlinum. Dagbjartur á best 79,57 metra frá MÍ á Akureyri 2021.
„Maður finnur yfirleitt strax þegar kast er gott og þá er það bara að henda hendinni upp og njóta að sjá það svífa.“
Ísland átti fimm keppendur á mótinu og má lesa meira um úrslit þeirra hér.
Erna sjöunda á bandaríska háskólameistaramótinu
Erna Sóley Gunnarsdóttir (ÍR) kláraði frábært innanhúss tímabil með því að ná sjöunda sæti á bandaríska háskólameistaramótinu (NCAA Indoor Championsips) í kúluvarpi í Albuquerque í New Mexico. Erna kastaði lengst 17,59 metrar sem er þriðja lengsta kastið hennar á ferlinum og kom kastið í fjórðu umferð. Íslandsmet Ernu í greininni er 17,92 metrar. Erna hlaut viðurkenninguna All American en til þess að hljóta hana þarf íþróttamaður að vera á meðal átta efstu á bandaríska meistaramótinu. Þetta er í fyrsta sinn sem hún hlýtur þessa viðurkenningu.
Flottur árangur í Krikanum
Lokamót Nike mótaraðarinnar fór fram á fimmtudag. Irma Gunnarsdóttir (FH) var enn og aftur með frábær úrslit og stökk lengst 6,20 metra. Hún bætti einnig sinn persónulega árangur í 60 metra hlaupi þar sem hún kom í mark á tímanum 7,76 sek. Hún varð önnur í hlaupinu á eftir Freyju Nótt Andradóttir (FH) sem jafnaði sinn persónulega árangur, 7,58 sek.
Kolbeinn Höður Gunnarsson sigraði í 60m hlaupi karla á tímanum 6,85 sek. Gylfi Ingvar Gylfason (FH) stórbætti sig í hlaupinu og kom sér í 4-6. sæti á lista yfir besta árangur í 60m hlaupi innanhúss frá upphaf með tímanum 6,91 sek.
Bikarkeppni FRÍ um helgina
Á laugardag fer fram 17. Bikarkeppni FRÍ í boði Lindex í Kaplakrika og eru sjö lið skráð til leiks: Ármann, Breiðablik, FH A, FH B, sameiginlegt lið Fjölnis og UFA, HSK og ÍR. Keppni hefst klukkan 14:00 og lýkur um 16:00. Bikarkeppni FRÍ 15 ára og yngri fer einnig fram á laugardag og eru þar skráð til leiks átta pilta lið og tíu stúlkna lið.
Keppendalisti verður birtur á miðvikudag. Tímaseðla má sjá hér.